Hefur jákvæðni áhrif á líðan og heilsu – er jákvæðni val ?

Fjöldi rannsókna hafa sýnt að það að vera jákvæður og bjartsýnn hefur jákvæð áhrif á heilsu, andlega, líkamlega og félagslega. Ein ástæðan virðist vera að þessir einstaklingar eiga auðveldara með að takast á við streitu í daglegu lífi á uppbyggilegan hátt, lifa heilbrigðara lífi og hafa jákvæðar væntingar til lífsins.

Rannsóknir hafa sýnt að til eru aðferðir til að draga úr neikvæðri hugsun og auka jákvæðni og bæta líðan. Þær eru sem dæmi hugræn atferlismeðferð og að tala við sjálfan sig með því markmiði að auka jákvæðni og bjartsýni.

Sumir virðast vera jákvæðir og bjartsýnir að eðlisfari, aðrir þurfa hreinlega að æfa sig. Ef þér hættir til að vera neikvæður þá er óraunhæft að ætla að breytingin taki aðeins einn dag og að maður verði alltaf bjartsýnn og jákvæður.   Kannski er raunhæft markmið að bæta líðan með því að draga úr neikvæðni og auka umburðarlyndi gangnvart sjálfum sér og öðrum.

Gott er að byrja á einfaldri reglu. Ekki segja eða hugsa neitt um sjálfan þig sem þú myndir ekki segja við næsta mann.   Vertu umburðalyndur og hvetjandi við þig sjálfan og ef neikvæðar hugsanir fylla hugann reyndu þá að verjast þeim með því að finna jákvæða hluti varðandi sjálfan þig eða eitthvað sem þú hefur gert

Fyrir suma er þetta erfiðara, stundum gerir fólk óraunhæfar kröfur til sjálfs sín, finnst það aldrei standa sig nógu vel og er fullt efa um eigið ágæti. Þá þarf stundum að brjóta upp ósæskilegt munstur og setja sér raunhæf markmið.

Landlæknir gaf fyrir nokkrum árum út ,,Geðorðin 10“ og er geðorð eitt: Hugsaðu jákvætt, það er léttara. Þar kemur fram að hægt sé að hafa áhrif á líðan með jákvæðu hugarfari en að dagarnir geti verið misjafnir. Stundum fullir af jákvæðni, bjartsýni og gefandi samskiptum við fólk, en aðra daga getur verið erfitt að hugsa jákvætt. Áföll og erfiðleikar geta orðið til þess að neikvæðar hugsanir fylla hugann. Mikilvægt er að viðurkenna þær hugsanir, leita aðstoðar vina og ættingja eða fagfólks ef þörf er á.

Vellíðan og velgengni er langhlaup, ef ekki eilífðarvinna.

 

f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Guðný Bogadóttir

hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar í Vestmannaeyjum

 

 

http://www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item19641/Engin-heilsa-an-gedheilsu

http://www.mayoclinic.org/healthy-lifestyle/stress-management/in-depth/positive-thinking/art-20043950?pg=1