Hafa áhyggjur af niðurskurði og skertri þjónustu HSu

Hjúkrunar- og ljósmæðraráð HSu hefur sent þingmönnum Suðurkjördæmis svohljóðandi bréf:

Efni: Áhyggjur hjúkrunar- og ljósmæðraráðs HSu á niðurskurði og skertri þjónustu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.


Að undanförnu hefur mikil umræða farið fram í fjölmiðlum varðandi niðurskurð í heilbrigðisgeiranum og þá skýrslu sem kom út í árslok 2009 “Frá orði til athafna” um greiningu á kostnaði og ábata af tilfærsu verkefna milli sjúkrahúsanna á suðvesturhorni landsins.


Háværar raddir hafa verið um niðurskurð á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja en hljótt hefur verið um þann niðurskurð sem nú þegar hefur orðið á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, en þar hafa yfirmenn unnið ásamt starfsfólki að því að finna leiðir svo hægt væri að komast hjá því að segja upp fleirra starfsfólki og loka deildum. Ljóst var strax í haust að til að ná fram þessum mikla sparnaði varð að hrinda strax í framkvæmd ákvörðun fyrrum heilbrigðisráðherra og hluta þeirra tillagna sem komu fram í skýrslunni “Frá orði til athafna”.


 

Lögð var niður vaktþjónusta á skurðdeild HSu, auk bakvakta fæðingarlæknis, sem gerði það að verkum að þjónustustig fæðandi kvenna á þjónustusvæði HSu fór núna um áramótin, af þjónustustigi C1 niður á D1 sem er lægsta stig fæðingarþjónustu ef frá er talin heimaþjónusta. Ljóst er að þessi breyting á eftir að valda fæðandi konum hér í héraði óöryggi, óþægindum, óhagræðingu og jafnvel auknum kostnaði. Jafnframt þessu var skorin niður þjónusta við sjúkraflutninga, þar sem dregið hafði úr flutningum í fyrra, en leiða má að því líkum að við samdrátt á þjónstu HSu aukist þörf á flutningi bráðveikra til Reykjavíkur.


Heilsugæsluselum á Eyrarbakka og Stokkseyri var auk þessa lokað í fyrra, sem veldur því að íbúar þar þurfa að sækja alla hjúkrunar- og lækniþjónustu á Selfoss. Þá hefur starfsfólk tekið á sig launaskerðingu, vöktum verið breytt og ekki hefur verið ráðið í stöður sem losna. Þetta hefur leitt til aukins álags á það starfsfólk sem eftir er og það starfsfólk sem á um langan veg að fara til að sækja vinnu er mjög uggandi vegna aukins kostnaðs við ferðir til og frá vinnu.


Þá telur Hjúkrunar- og ljósmæðraráð HSu að ríkið hafi ekki reynt að minnka kostnað sinn við einkareknar læknastofur á höfuðborgarsvæðinu með því að auka samskonar þjónustu á samkeppnishæfu verði hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, en með því væri m.a. hægt að styrkja nærþjónustuna. Hætta er á að minni kostnaður við HSu. sé fyrst og fremst tilfærsla á kostnaði sem verður að greiða annars staðar af ríkinu fyrir íbúa Suðurlands eða af þeim sjálfum með tilheyrandi fyrirhöfn og tímatapi. Undrast hjúkrunar- og ljósmæðraráð HSu hversu hljóðir þingmenn kjördæmisins hafi verið um þetta mál og lítið beitt sér til að hafa áhrif á þessa aðför að heilbrigðisþjónustu svæðisins.


Það eru eindregin tilmæli hjúkrunar- og ljósmæðraráð að fylgst verði með áhrifum þessara breytinga á öryggi og þjónustu við íbúa á þjónustusvæði HSu, auk þess sem að klínískt áhættumat þeirra sem best þekkja til á hverjum tíma verði lagt til grundvallar við ákvarðanir um endurskoðun. Hvetur hjúkrunar- og ljósmæðraráð HSu þingmenn kjördæmisins að beita sér fyrir því að náið verði fylgst með áhrifum þessara breytinga og láti til sín taka við að standa vörð um heilbrigðisþjónustu landsbyggðarinnar.


f.h. Hjúkrunar- og ljósmæðraráðs


Anna Guðríður Gunnarsdóttir, formaður