Hættir á HSu eftir 37 ára starf

Viktoría Guðmundsdóttir, aðstoðarmaður á myndgreiningardeild (röntgen) HSu lét af störfum nú um mánaðamótin eftir 37 ára starf. Hún byrjaði sem gangastúlka á Sjúkrahúsi Selfoss en síðustu 25 árin vann hún á myndgreiningardeildinni. Af þessu tilefni efndu stjórnendur til kaffisamsætis og færðu Viktoríu gjöf og þökkuðu henni störfin í þágu stofnunarinnar.


Viktoría rifjaði upp hvernig var að vinna á „gamla sjúkrahúsinu“ eins og það er oft nefnt, en þá var hún t.d. ein á næturvakt þó húsið væri fullt af sjúklingum. Hjúkrunarfræðingar og ljósmæður voru þá á bakvakt og sváfu heima hjá sér og það gerði læknirinn að sjálfsögðu einnig.
Algengt var í þá daga að gangastúlkur /starfsfólk í aðhlynningu aðstoðaði á skurðstofu og við fæðingar ef þörf var.  Þá dvöldu sængurkonur og aðgerðasjúklingar mun lengur á sjúkrahúsinu en tíðkast í dag. Oft voru 4 – 6 sængurkonur inni í einu en þær voru ekki útskrifaðar fyrr en á 6. eða 7. degi. Á  árunum 1965 – 1975 var ekki óalgengt að fæðingar á sjúkrahúsinu væru 180 á ári.


Á meðfylgjandi mynd er Viktoría (í miðið) ásamt samstarfskonum sínum á deildinni þeim Sigríði Bergsteinsdóttur og Guðrúnu Hálfdánardóttur, geislafræðingum, Esther Óskarsdóttur, skrifstofustjóra og Magnúsi Skúlasyni, forstjóra HSu.