Grindarbotn

Allt að 40% kvenna  upplifa einhver vandamál með grindarbotnsvöðvana af einhverjum toga á lífsleiðinni.  Þau vandamál geta verið  ýmisleg en það er oft þannig í daglegu lífi að viðkomandi verður ekki var við veikleika, en við aukið álag birtist veikleikinn.  Áreynsluþvagleki er einna algengasti kvilli kvenna og kemur við álag, eins og hopp, skokk, hósta, að hlægja, íþróttir  ofl.

Barneignir eru  dæmi um  það sem dregið getur úr styrk grindarbotnsvöðvanna þar sem aukinn þungi liggur á honum.  Ýmislegt fleira getur einnig komið til eins og t.d. vegna tíðarhvarfa, skaða á mjaðmagrind, skurðaðgerðir og meðfæddir gallar.

Stundum er vandamál að grindarbotninn er yfirspenntur.  Það er vandmeðfarið og birtist helst í þvagleka og verkjum.  Það gæti þurft mat hjá fagaðila til að meta það en þá ætti ekki að gera grindarbotnsæfingar, heldur er unnið með öndun og slökun

 

Hvað er grindarbotn og grindarbotnsvöðvar ? Þessir vöðvar mynda einskonar gólf undir kviðarholslíffærin og skipta því miklu máli í sambandi við þvagleka, legsig, hægðar/ loftleka og verki. Þessir vöðvar halda líffærunum á sínum stað. Svara kallinu sjálfvirkt og herpast án þess að við  þurfum að plana það.   Grindarbotninn er hluti af miðjunni okkar „core“ inu og virkjast mest þegar við virkjum djúplægu kviðvöðvana. 

Það þarf að þjálfa grindarbotninn sérstaklega ef það eru veikleikar eða sig á honum.

 

Hvað er þá hægt að gera við slöppum grindarbotnsvöðum?

Grindarbotnsæfingar eru áhrifarík leið til að vinna gegn þessum vandamálum með réttum æfingum og réttu æfingaálagi.  Mikilvægt er að finna þá og læra að spenna rétta vöðva og slaka líka á þeim.  Það hefur sýnt sig að öndun og tengslin við vöðvahópana í kviðnum og bakinu skiptir mjög miklu máli varðandi grindarbotninn.  Öndun er samofin virkni í grindarbotnsvöðvunum en þegar við drögum andann inn slaknar á grindarbotninu og þegar við öndum frá okkur lyftist hann upp.  Þetta er ákveðin tækni sem maður gæti þurft hjálp við að tileinka sér í æfingunum.

Aukin lífsgæði tengt þessum vandamálum eru mikilvæg og að læra að takast á við vandann.  Oftast er það hægt með réttu æfingunum og rétta æfingaálaginu.   Þetta er ekki eitthvað sem er í tísku, heldur verður að vera lífsstíll og dagleg rútína hjá okkur.

Það hjálpar að ná upp grunnstyrk, sem gefur okkur þá sterkari miðju, leiðir til betri líkamsstöðu og dregur úr mjóbaksverkjum. Sterkur grindarbotn er líka mikilvægur fyrir gott kynlíf.

 

 

Fh. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Björk Steindórsdóttir

Ljósmóðir Selfossi