Göngudeild Lyflækninga á Selfossi

Katrín Ósk ÞorgeirsdóttirStór hópur fólks af Suðurlandi hefur þurft að sækja sérhæfða læknisþjónustu til Reykjavíkur með miklum tilkostnaði og óþægindum.

Í lok nóvember 2014 tók til starfa á Heilbrigðisstofnun Suðurlands Selfossi ný göngudeild. Hlutverk hennar er að sinna sjúklingum sem þurfa á blóðskilun að halda ásamt blóðgjöfum og ýmsum lyfjagjöfum sem áður þurftu að sækja þá þjónustu til Reykjavíkur.

Töluverður áhugi skapaðist á opnun deildarinnar meðal fjölmargra einstaklinga og fyrirtækja og án þeirra stuðnings hefði reynst erfitt að opna deildina.

Segja má að starfsemi deildarinnar sé tvíþætt. Annars vegar blóðskilunarhluti og hins vegar lyfjagjafahluti.

 

Blóðskilunarhluti:

Sjúklingar sem þurfa á blóðskilun að halda eru þeir einstaklingar sem eru með nýrnabilun á lokastigi.

Nýrun starfa þá ekki nema að mjög litlum hluta eða nánast ekki neitt. Þar sem nýrun eru hreinsistöð líkamans þá safnast úrgangs- og eiturefni fyrir í líkamanum sem þarf að hjálpa til við að koma í burtu. Búnar eru til æðatengingar í handlegg viðkomandi sem síðan er stungið í, í hvert sinn sem sjúklingur fer í blóðskilunarvélina.

Tvær blóðskilunarvélar eru á deildinni sem þrír sjúklingar nýta núna. Hver blóðskilun tekur 4 ½-5 klukkutíma með undirbúningi og kemur hver einstaklingur þrisvar sinnum í viku. Blóðskilunarhluti göngudeildar er útibú frá blóðskilunardeild LSH.

 

Lyfja- og blóðgjafir:

Sjúklingar sem koma í lyfja- og blóðgjafir á göngudeild koma vegna ýmissa sjúkóma. Má þar m.a. nefna meltingarfærasjúkdóma, húðsjúkdóma, taugasjúkdóma, gigtarsjúkdóma, blóðsjúkdóma og krabbameina. Við sjáum síðan fram á bætta þjónustu þar sem vonandi verður hægt að gefa flóknari krabbameinslyf innan ekki svo langs tíma.

Á göngudeildinni starfa 5 hjúkrunarfræðingar og er deildin opin mánudaga, miðvikudaga og föstudaga frá kl 8-18.

 

 

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Katrín Ósk Þorgeirsdóttir

Hjúkrunarfræðingur á göngudeild HSU á Selfossi