Góður árangur af meðferð á Sogni

Fréttatilkynning frá Óskari S. Reykdalssyni, framkvæmdastjóra lækninga
Á Sogni er starfrækt réttargeðdeild, sú eina sinnar tegundar á Íslandi. Markmið réttargeðdeildarstarfsins er að undirbúa þá sjúklinga sem þar vistast fyrir brottför og að gera hana framkvæmanlega innan eðlilegs tíma.Mótun meðferðarstarfs og undirbúningur útskriftar fer eftir þörfum hvers og eins sem þar vistast og í mjög nánu samstarfi við velferðarsvið sveitarfélaga, svæðisskrifstofur ríkisins, félagasamtök, vinnustaði, dómskerfið, heilsugæslur, sérfræðilækna, fyrri meðferðardeildir sjúklinga og fleiri.
Á Sogni starfa tveir geðlæknar, sálfræðingur, hjúkrunarfræðingar, staðarhaldari, iðjuþjálfi, ráðgjafar, kennarar og gæslumenn. Núverandi iðjuþjálfi hefur sagt starfi sínu lausu en ekki hefur tekist að fá nýjan þrátt að auglýst hafi verið.

Frá opnun deildarinnar fyrir 15 árum hafa á fimmta tug sjúklinga innskrifast á réttargeðdeildina, þar af um helmingur ósakhæfur. Núna eru 6 sjúklingar á deildinni.
Allir hinir hafa útskrifast og enginn þeirra aftur framið afbrot og er það einsdæmi í árangri innan heilbrigðiskerfisins.
Í skýrslu vinnuhóps, sem Jón Kristjánsson þáverandi heilbrigðisráðherra skipaði, og Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri í Heilbrigðisráðuneytinu stýrði, kemur fram álit vinnuhópsins um að stækka þurfi deildina í u.þ.b. 20 rými og ýmsar viðbætur lagðar til, til þess að auka enn á gæði þjónustunnar og bæta hana.
Það er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir því að meðferð öryggisgæslusjúklinga lýkur ekki við útskrift en eftirfylgnin getur verið í höndum ýmissa aðila. Náið samstarf er um það. Héraðsdómur Suðurlands hefur skapað skynsamlegar fordæmisgefandi hefðir um afléttingu dóma og útskriftir. Dómurinn setur ætíð skýr fyrirmæli um eftirfylgni sem bæði sjúklingar og viðkomandi meðferðaraðilar bera ábyrgð á að farið sé eftir. Í dómsorði við útskrift er sjúklingi ætíð gert að fylgja læknisráði um lyf og fleira og í mörgum tilvikum að halda sig frá vímuefnaneyslu þar eð hún er talin geðheilsu hans hættuleg.
Þar sem hér er um að ræða mjög veikt fólk með alvarlega geðsjúkdóma sem hafa valdið alvarlegum einkennum og afbrotum þá er málefnið mjög viðkvæmt og margir eiga um sárt að binda bæði fjölskyldur gerenda sjúklings og fórnarlamba. Meðferðin er því mjög erfið, viðkvæm og tekur langan tíma.
Margir hafa sýnt réttargeðdeildinni stuðning og vinsemd á undanförnum árum og má þar nefna Kærleikssjóð Rósu og Landsbankann, með Björgólf Guðmundsson í fararbroddi, listamenn eins og JóJó, Guðmund Steingrímsson (Papa Jazz), Togga, séra Hrein Hákonarsson og söngfólk hans ásamt séra Gunnari Björnssyni sem og AA fólkinu.