Góð reynsla af iðjuþjálfun barna og ungmenna

Nú hefur tilraunaverkefni um iðjuþjálfun barna og ungmenna á Suðurlandi staðið í eitt ár.  Verkefnið er til 3ja ára og er samstarfsverkefni Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Skólaskrifstofu Suðurlands og Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Suðurlandi.

Starfið felur í sér iðjuþjálfun barna og ungmenna 0-18 ára, þátttöku í greiningarteymi barna, ráðgjöf í leik- og grunnskólum, fræðslu til starfsfólks, ásamt einstaklingsþjálfun samkv. tilvísunum.  Verkefni eins og mat, ráðgjöf og þjálfun hefur farið fram í nánasta umhverfi barnsins/skjólstæðingsins. Starfssvæðið er Suðurland og vinnur iðjuþjálfinn eftir tilvísunum frá þeim stofnunum, sem að tilraunaverkefninu standa. Verkefni fyrir Svæðisskrifstofu eru ekki bundin við börn, heldur notendur á öllum aldri. Felast flest verkefnin þar í mat og ráðgjöf vegna hjálpartækja, aðstæðna á heimilum og vinnustöðum, úttekta og fræðslu til notanda og starfsfólks. 

Verkefnið hófst í ágúst 2007.  Fram að því hafði engin iðjuþálfun verið í boði á Suðurlandi.  Þau börn, sem nutu iðjuþjálfunar, þurftu að sækja hana til Reykjavíkur, sum nokkrum sinnum í viku.  Börn og aðstandendur þurftu að ráðstafa miklum tíma í ferðalög, fjarri skóla og annarri vinnu, til að sækja þjónustu til Reykjavíkur, sem hæglega var hægt að veita nær heimabyggð.


Guðrún Herborg Hergeisdóttir, iðjuþjálfi, hefur rutt þessu verkefni braut.  Við algerar bráðabirgðaaðstæður hefur henni tekist að uppfylla tilgang verkefnisins.  Meira að segja hafa börn notið iðjuþjálfunar hennar, sem sennilega hefðu ekki notið iðjuþjálfunar við fyrri aðstæður og eru þar með væntanlegar betur undir búin en ella til að takast á við lífið.


Aðstaða til iðjuþjálfunar verður í hinu nýja endurhæfingarhúsnæði í nýrri byggingu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi.  Verður það væntanlega tekið í notkun nú í lok ársins.  Þar mun verða aðstaða til að taka börn í sérhæfða iðjuþjálfun, en auk þess verður áhersla lögð á að þjónusta börn og ungmenni í sínu umhverfi, út í skólum og á heimili eins og áður hefur verið.


Iðjuþjálfinn situr í endurhæfingarteymi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og  í Greiningarteymi barna, sem er þverfaglegt teymi Heilbrigðisstofnunar, Skólaskrifstofu, Svæðisskrifstofu og Sveitarfélagsins Árborgar. Á starfssvæði iðjuþjálfans eru 15 grunnskólar, 20 leikskólar og 8 heilsugæslustöðvar. Nær starfssvæðið frá Kirkjubæjarklaustri í austri til Ölfuss í vestri, auk allra uppsveita. 

Greinargerð iðjuþjálfa okt.2008