Góð nýting á nýja tölvusneiðmyndatækinu

Mjög góð nýting hefur verið á tölvusneiðmyndatækinu sem gefið var árið 2010 til HSu.

Á árinu 2011 voru um 1100 rannsóknir gerðar í tækinu og er það mjög góð nýting.

 

Fyrir Sunnlendinga var koma tækisins gríðarleg hagræðing og bót fyrir þá sjúklinga sem þurfa á þjónustu svona tækis að halda.  Áður þurfti árlega að senda yfir 100 sjúklinga af sjúkrahúsinu til Reykjavíkur með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn og nú sparast líka ferðir þeirra sem fóru áður á eigin vegum.  Miðað við notkunina á tækinu má reikna með að þar með sparist 1100 ferðir, fram og til baka, yfir heiðina.  Það gera um 150.000 km. sparnað í akstri fyrir Sunnlendinga til höfuðborgarinnar og svo getur hver fyrir sig reiknað bensínkostnaðinn sem sparast þar líka. 

 

Tækið var formlega tekið í notkun í lok ágúst 2010.  Það var gefið úr líknarsjóði Harðar Þorgeirssonar og Unnar Guðmundsdóttur.  Tækið er með fullkomnari tækjum og það fullkomnasta á landsbyggðinni.  Tækið tekur sneiðmyndir, eða svo kallaðar „tomografiskar myndir“. Sendir eru geislar í gegnum sjúklinginn í ákveðnum sneiðum og tölvan myndgerir upplýsingarnar á þann hátt að læsilegar séu.