Glæsileg aðstaða heilsugæslu og endurhæfingar

Síðari hluti nýrrar viðbyggingar við Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSu) á Selfossi verður formlega tekinn í notkun í dag. Að lokinni vígsluathöfn fimmtudaginn 8. apríl verður opið hús fyrir almenning til að skoða nýbygginguna frá kl. 16:30 – 18:00.


Með tilkomu nýju byggingarinnar fær heilsugæslan nýtt og mun rúmbetra húsnæði á 1. hæð, endurhæfingaraðstaða verður stórbætt, auk þess sem nýr og stórglæsilegur aðalinngangur og anddyri voru tekin í notkun í ársbyrjun 2008. Þá fjölgaði hjúkrunarrýmum fyrir aldraða úr 26 í 40 á Selfossi, eða um tæp 60%. Unnið er að undirbúningi endurbóta á eldri byggingunni þar sem bætt verður aðstaða fyrir sjúkrahús, sérfræðimóttökur og skrifstofur. Stefnt er að því að hefja nauðsynlegar breytingar á eldri byggingunni næsta haust. 

Magnús Skúlason forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands:


„Nú er tekinn í notkun síðasti áfangi nýbyggingar HSu. Að þessu sinni bætist við ný og stórglæsileg heilsugæslustöð, ásamt góðri aðstöðu fyrir endurhæfingu, kennslu, fundi og ýmsa stoðþjónustu. Framkvæmdir hafa gengið mjög vel þó nokkur töf hafi orðið á þeim. Ég er sérstaklega ánægður með það jákvæða hugarfar sem ríkt hefur gagnvart þessari framkvæmd. Heilbrigðisráðuneyti, þingmenn, sveitarstjórnir, starfsfólk og íbúar hafa lagst á eitt og stutt vel við bakið á þessu verkefni – og það munar um þann stuðning. Hér er enda um mikið hagsmunamál að ræða fyrir þá 20 þúsund íbúa, sem við þjónustum, auk allra annarra, sem hingað þurfa að leita.“


Húsnæðið tvöfaldast með nýrri viðbyggingu


Nýbyggingin er þrjár hæðir auk kjallara – alls 5.400 fermetrar. Áætlaður heildarkostnaður við bygginguna er um 1,7 milljarður króna. Framkvæmdir við bygginguna hófust síðla árs 2004. Eldra húsnæði Heilbrigðisstofnunarinnar á Selfossi var um 4.500 fermetrar, þannig að um tvöföldun er að ræða með tilkomu nýju byggingarinnar.


Í kjallara verður fullkomin endurhæfingaraðstaða, kennslu- og fundaaðstaða, kapella, tæknirými og geymslur. Á 1. hæð verður heilsugæslustöð og á 2. og 3. hæð eru hjúkrunardeildir fyrir aldraða, sem voru opnaðar á árinu 2008. Á hvorri deild eru 20 hjúkrunarrúm fyrir aldraða.


Þessi síðasti áfangi, sem nú er verið að taka í notkun, kostar um 320 milljónir króna, samkvæmt upplýsingum frá Framkvæmdasýslu ríkisins. Samtals er því reiknað með að kostnaður við viðbygginguna verði 1.650 milljónir króna. Inni í þessum tölum er allur búnaður og miðast upphæðin við bygginguna fullgerða. Þessi niðurstöðutala er í fullu samræmi við þær áætlanir sem lagt var upp með þegar hafist var handa við bygginguna.


Helstu hönnuðir og eftirlitsaðilar    

Arkitekt;


Teiknistofan Óðinstorgi, arkitekt Helgi Hjálmarsson.


Burðarþol og lagnir;


Verkfræðistofa Guðjóns Sigfússonar ásamt VGK-Hönnun


Rafkerfi; Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar.


Umsjón með hönnunarferli f.h. Heilbrigðisráðuneytis hafði Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen Umsjón með útboði, verkframkvæmd og eftirliti var í höndum Framkvæmdasýslu ríkisins.


http://www.fsr.is/Verkefni/Oll-verkefni/kynning/~/nr/6085503

Um Heilbrigðisstofnun Suðurlands


Starfsemi HSu skiptist í meginatriðum í þrennt: Heilsugæslu, sjúkrahús og hjúkrunardeildir aldraðra. Heilsugæslustöðvar eru átta, frá Þorlákshöfn og Hveragerði í vestri til Kirkjubæjarklausturs í austri. Sjúkrahús er á Selfossi, þar sem m.a. er veitt þjónusta í lyflækningum, fæðingar- og kvensjúkdómalækningum, skurðlækningum, barnalækningum, myndgreiningu, rannsóknum og sjúkra- og iðjuþjálfun. Í nýbyggingunni eru síðan tvær hjúkrunardeildir fyrir aldraða, samtals 40 rúm. Þá annast stofnunin alla sjúkraflutninga á Suðurlandi. Alls eru um 220 stöðugildi hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.