Gjöf til HSU frá kvenfélögum Skeiða- og Gnúpverjahrepps

Á myndinni eru, frá vinstri, Harpa Dís Harðardóttir formaður Kvenfélags Skeiðahrepps, Bryndís Baldursdóttir gjaldkeri Kvenfélags Gnúpverja og Sigrún Símonardóttir formaður Kvenfélags Gnúpverja að afhenda Sigurjóni Kristinssyni yfirlækni og Rán Jósepsdóttur hjúkrunarstjóra tækið góða.

 

 

Kvenfélag Skeiðahrepps og Kvenfélag Gnúpverja komu færandi hendi á heilsugæsluna í Laugarási á vordögum og færðu stofnuninni sólarhringsblóðþrýstingsmæli að verðmæti 340.380. kr.

 

Þessi gjöf kemur sér afar vel og á eftir að nýtast vel til að fylgjast náið með blóðþrýstingi og er lykiltæki til að veita sem nákvæmasta og réttasta meðferð við blóðþrýstingsvandamálum. Tækið hefur þegar verið tekið í notkun og hefur strax sannað mikilvægi sitt við greiningu blóðþrýstingsvandamála uppsveitamanna.

 

Er báðum kvenfélögum færðar innilegar þakkir fyrir stuðninginn en kvenfélögin í sveitinni hafa stutt dyggilega við heilsugæsluna í Laugarási í áratugi og er það ómetanlegt.