Í grein sem Björn Hjálmarsson barnalæknir á Barna- og unglingageðdeild Landsspítlans skrifar í Morgunblaðið nýverið, lýsir hann áhyggjum sínum af óhóflegri tölvu- og snjalltækjanotkun og að hún sé nú þegar orðin vandamál meðal íslenskra ungmenna.
„Þetta er gríðarlega öflug og góð tækni, en hún getur verið viðsjárverð fyrir þá sem ofnota hana. Ég held að það sé mikil þörf fyrir opna samfélagslega umræðu um þessa tækni, þannig að við lærum að umgangast hana,“ segir Björn.
„Við sjáum tvær myndir af þessu. Annars vegar unglingsstúlkurnar sem eru orðnar háðar því að fá viðgjöf í gegnum netið og eru nánast orðnar þrælar símanna sinna. Þær þurfa að svara hverju tísti og vaka jafnvel á nóttunni til að sinna þessari þörf. Þetta verður eins konar vítahringur, þær verða háðar lækum og gera allt til að fá sem flest læk. Um leið og ólag er komið á svefninn hrakar síðan námsárangri, eða frammistöðu í starfi, mjög hratt. Þetta eru jafnan gáfaðar stúlkur sem allt í einu heltast úr lestinni í skólanum og enginn veit af hverju. Íslenskar rannsóknir benda til þess að hjá þessum hópi stúlkna sé kvíði og svefnvandi vaxandi vandamál, en kvíðinn virðist rista dýpra en áður,“ segir Björn og bætir við að því fylgi mikið óöryggi að vera háður ytri viðmiðum um eigin persónu.
Björn bendir á að vandi drengja lýsi sér yfirleitt með öðrum hætti, en þeim er hættara við að ánetjast tölvuleikjum.
„Það er merkilegt hvað þessi vandi er kynbundinn, en það eru sérstaklega þessir fjölspilunarleikir sem virðast vera skeinuhættastir fyrir piltana okkar. Þetta eru tölvuleikir þar sem einstaklingar skipa sér í lið með liðsmönnum sem geta verið hvaðanæva úr heiminum, þar sem þeir svo etja kappi við annað lið. Þetta eru svo krefjandi leikir að einstaklingar geta varla farið á klósettið meðan á leik stendur því þá eru þeir að svíkja liðsfélaga sína. Þessir leikir rústa gjarnan reglunni á sólarhringnum, því það er ekki hægt að hætta í leiknum fyrr en hann er búinn. En þá er nóttin jafnvel úti.“
Hér má sjá greinina í heild sinni