Geta börnin orðið ör­yrkj­ar af net­notk­un?

Í grein sem Björn Hjálmarsson barnalæknir á Barna- og unglingageðdeild Landsspítlans skrifar í Morgunblaðið nýverið, lýsir hann áhyggjum sínum af óhóf­legri tölvu- og snjall­tækja­notk­un og að hún sé nú þegar orðin vanda­mál meðal ís­lenskra ung­menna. 

„Þetta er gríðarlega öfl­ug og góð tækni, en hún get­ur verið viðsjár­verð fyr­ir þá sem of­nota hana. Ég held að það sé mik­il þörf fyr­ir opna sam­fé­lags­lega umræðu um þessa tækni, þannig að við lær­um að um­gang­ast hana,“ seg­ir Björn.

„Við sjá­um tvær mynd­ir af þessu. Ann­ars veg­ar ung­lings­stúlk­urn­ar sem eru orðnar háðar því að fá viðgjöf í gegn­um netið og eru nán­ast orðnar þræl­ar sím­anna sinna. Þær þurfa að svara hverju tísti og vaka jafn­vel á nótt­unni til að sinna þess­ari þörf. Þetta verður eins kon­ar víta­hring­ur, þær verða háðar læk­um og gera allt til að fá sem flest læk. Um leið og ólag er komið á svefn­inn hrak­ar síðan náms­ár­angri, eða frammistöðu í starfi, mjög hratt. Þetta eru jafn­an gáfaðar stúlk­ur sem allt í einu helt­ast úr lest­inni í skól­an­um og eng­inn veit af hverju. Íslensk­ar rann­sókn­ir benda til þess að hjá þess­um hópi stúlkna sé kvíði og svefn­vandi vax­andi vanda­mál, en kvíðinn virðist rista dýpra en áður,“ seg­ir Björn og bæt­ir við að því fylgi mikið óör­yggi að vera háður ytri viðmiðum um eig­in per­sónu.

Björn bend­ir á að vandi drengja lýsi sér yf­ir­leitt með öðrum hætti, en þeim er hætt­ara við að ánetj­ast tölvu­leikj­um.

„Það er merki­legt hvað þessi vandi er kyn­bund­inn, en það eru sér­stak­lega þess­ir fjöl­spil­un­ar­leik­ir sem virðast vera skeinu­hætt­ast­ir fyr­ir pilt­ana okk­ar. Þetta eru tölvu­leik­ir þar sem ein­stak­ling­ar skipa sér í lið með liðsmönn­um sem geta verið hvaðanæva úr heim­in­um, þar sem þeir svo etja kappi við annað lið. Þetta eru svo krefj­andi leik­ir að ein­stak­ling­ar geta varla farið á kló­settið meðan á leik stend­ur því þá eru þeir að svíkja liðsfé­laga sína. Þess­ir leik­ir rústa gjarn­an regl­unni á sól­ar­hringn­um, því það er ekki hægt að hætta í leikn­um fyrr en hann er bú­inn. En þá er nótt­in jafn­vel úti.“

Hér má sjá greinina í heild sinni