Gengið gegn slysum

Þann 26. júní nk. kl 17:00 stóð starfsfólk HSu Selfossi fyrir göngu gegn umferðarslysum. Forsagan að göngunni var að hjúkrunarfræðingar á LSH skipulögðu slíka göngu í Reykjavík og vildum við sýna samstöðu með því að ganga hér fyrir austan.Í tilkynningu frá hjúkrunarfræðingunum sagði m.a.: „Framundan er sumarið og viljum við gera almenningi grein fyrir áhyggjum okkar  vegna aukins hraða í umferðinni og alvarleika slysa. Efst á óskalistanum eru ekki fleiri viðskiptavinir í sumar“

Öll vitum við hvernig umferðin er hér í okkar umdæmi.
Um 100 manns tóku þátt í göngunni með okkur, starfsfólk HSu, sjúkraflutningamenn, slökkvilið, lögregla og íbúar á staðnum. Sleppt var 54 svörtum blöðrum til minningar um þá sem látist hafa í umferðarslysum á Suðurlandsveginum. Gengið var frá sjúkrahúsinu v/Árveg, upp Heiðmörkina, á Austurveg og niður að ráðhúsi , til baka og endað við Lögreglustöðina við Hörðuvelli. Þar flutti Esther Óskarsdóttir, skrifstofustjóri, fulltrúi framkvæmdastjórnar HSu ávarp.

Í ávarpi sínu benti hún á hve bílaeign landsmanna hafi aukist mikið og umferðin samfara því. Við finnum það vel á Selfossi hvað umferðin er orðin þung og oft erfitt að komast leiðar sinnar – þá reynir á þolinmæðina og hana verðum við að hafa í umferðinni og tillitsemi við aðra.
Það er alveg ljóst að slysum hefur fjölgað og við finnum það berlega á okkar stofnun.
Mikil aukning hefur orðið á útköllum sjúkraflutningsmanna, en útköll hafa aukist um rúmlega 40% frá árinu 2005. Þá eru útköll hjá sjúkraflutningamönnum á Selfossi að meðaltali 4.3 á degi hverjum og er það 23% aukning frá fyrra ári.


Heilsugæslustöðvarnar á Suðurlandi finna vel fyrir aukinni umferð yfir sumartímann – sem m.a. ræðst af fjölgun íbúa í frístundabyggðinni hér á þessu svæði og erum við að þjónusta um 20 þúsund íbúa.
Á stofnuninni allri er allt að 100 bráðakomur á degi hverjum.
Stofnunin á Selfossi er nú að vinna að því í samráði við ráðuneytið að finna aðstöðu í húsnæði stofnunarinnar fyrir bráða- og slysamóttöku – en í nýrri teikningu að heilsugæslustöðinni á Selfossi var ekki gert ráð fyrir slysastofu – þar sem stöðin var einungis hugsuð eins og um venjulega heilsugæslustöð á höfuðborgarsvæðinu væri að ræða.
Heilsugæslustöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu taka ekki á móti bráða- og slysatilfellum þar sem þessu er sinnt af slysadeild Landsspítalans.
Heilsugæslustöðvarnar  á landsbyggðinni þurfa hins vegar að sinna öllum bráða- og slysatilfellum og þar af leiðandi er nauðsynlegt að útbúa aðstöðu svo hægt sé að sinna þessum erfiða málaflokki með góðu móti.


Um þessar mundir eru miklar byggingaframkvæmdir við stofnunina á Selfossi – þar sem verið er að byggja 2 hjúkrunardeildir 20 rúma hvor deild og með þessari byggingu skapast 16 ný hjúkrunarrými  – sem er langþráð ósk hér á þessu svæði.
Þá er einnig verið að byggja nýja heilsugæslustöð og í kjallara skapast einnig aðstaða fyrir iðju- og sjúkraþjálfun, nýja kapellu, fundarsal o.fl.
Byggingaframkvæmdir ganga vel og reiknað er með að fyrsti áfangi byggingarinnar þ.e.a.s. önnur hjúkrunardeildin verði tekin í notkun í lok þessa árs.


Þá eru einnig byggingaframkvæmdir í gangi við Björgunarmiðstöðina, en sú bygging er samstarfsverkefni hjá Brunavörnum Árnessýslu, Björgunarfélagi Árborgar  og Heilbrigðisstofnun Suðurlands, en stofnunin mun leigja aðstöðu í þessu húsi fyrir sjúkrabílana og aðstöðu fyrir starfsmenn sjúkraflutninganna.
Eftir þessari aðstöðu er beðið með eftirvæntingu, en byggingaframkvæmdir hafa tafist eitthvað, en byggingin verður tilbúinn á næsta ári.


Þrátt fyrir fjölgun slysa í umferðinni þá má einnig geta þess að dauðaslysum hefur fækkað, sem af er þessu ári. Eflaust má þakka það aukinni löggæslu – en það er sýnilegt að lögreglan er meira á ferðinni en áður var – bæði með aukinni hraðamælingu og eftirliti. Slysin eru hræðileg með allri þeirri þjáningu og sorg sem því fylgir  – að slasast alvarlega og vera jafnvel aldrei samur á eftir. Þetta er erfitt bæði fyrir þann sem slasast og fyrir aðstandendur.
Verum ávallt varkár með öll vélknúinn farartæki og forðumst hraðakstur og fíflalæti í umferðinni.
Stöndum saman í baráttunni gegn slysum og höfum þetta hugfast:
Verum varkár í umferðinni, virðum umferðarreglurnar, berum virðingu fyrir lífinu og enga sýndarmennsku, keyrum aldrei undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna, virðum umferðarreglurnar, tökum tillit til hvers annars og keyrum ávallt miðað við aðstæður hverju sinni.
Guð gefi okkur slysalaust sumar.