Geðlæknir til starfa á HSu

John Donne de Niet, hollenskur geðlæknir hefur hafið störf á HSu. Hann mun starfa í fangelsinu á Litla Hrauni og á Réttargeðdeildinni á Sogni.Don eins og hann kýs að kalla sig lauk læknanámi við Leyden University í Hollandi 1977 og 1979 lauk hann námi sem heimilislæknir. Don hefur starfað mikið að geðheilbrigðismálum og m.a. sinnt málefnum aldraðra geðsjúkra, innflytjenda og pólitískra flóttamanna en síðustu tvö árin hefur hann unnið á stofnun fyrir vímuefnaneytendur í Groningen í Hollandi.

Don er mikill tungumálamaður og talar fjöldann allan af tungumálum og er þegar byrjaður að læra íslensku.  Hann hefur keypt sér hús á Eyrarbakka og er fluttur þangað ásamt konu sinni. Þau eiga 3 börn sem öll eru við nám í Hollandi.