Gáttatif – atrial fibrillation

Gáttatif er rafleiðnitruflun í leiðslukerfi hjartans. Í hjartanu er innra leiðslukerfi sem stjórnar hjartsláttartíðni og takti. Þegar hjartað slær, færist boðspenna frá toppi hjartans til botns þess og veldur því að hjartað dregst saman og dælir blóði út til líkamans. Þegar hjartað slær eðlilega er hjartsláttartíðni þess undir stjórn Sinus hnútar (gangráður), sem er staðsettur í hægri gátt hjartans. Sinus hnúturinn er gerður úr sérhæfðum hjartavöðvafrumum sem mynda boðspennu. Sinus hnúturinn stjórnar svokölluðum sinus takti sem er eðlilegi taktur hjartans. Boðspenna frá sinus hnút færist hratt um gáttir hjartans og veldur því að þær dragast saman og dæla blóði niður í slegla. Á milli gátta og slegla hjartans er veggur úr þéttum vef sem stöðvar leiðni þar á milli, og þarf boðspennan því að fara í gegnum sérstakar frumur í AV-hnút/torleiðnihnút til þess að komast niður í slegla og valda samdrætti þeirra.

Þegar gáttatif á sér stað hefjast rafboð hjartans ekki í sinus hnútnum, heldur berast tíð, óregluleg rafboð frá mismunandi stöðum í gáttinni. Aðeins hluti af  rafboðum frá gáttunum berast til slegla og framkalla samdrátt og því verður púlsinn óreglulegur og geta hjartans til þess að dæla verður minni.

 

 

Helstu einkenni:

 • Þreyta, úthaldsleysi
 • Hraður óreglulegur hjartsláttur
 • Hjartsláttaróþægindi
 • Andnauð, mæði
 • Brjóstverkir, þyngsli fyrir brjósti
 • Svimi og jafnvel yfirlið
 • Sviti, ógleði

Það geta komið ýmsir fylgikvillar í kjölfar gáttatifs, en gáttatifið sjálft er þó yfirleitt ekki hættulegur taktur. Gáttatif veldur því að sleglar hjartans slá of hratt og til lengri tíma getur það mögulega veikt hjartavöðvann. Ef dælugeta í vinstri gátt skerðist getur verið hætta á myndun blóðsega. Áhætta á blóðsegamyndun getur verið breytileg milli einstaklinga og er gert mat á áhættu hjá hverjum og einum og tekin ákvörðun um blóðþynningarmeðferð.

 

Helstu orsakir og áhættuþættir:

 • Hjartasjúkdómar
  • Kransæðasjúkdómar, háþrýstingur, hjartabilun, hjartalokusjúkdómur, sjúkdómur í hjartavöðva
 • Sykursýki
 • Langvinnir lungnasjúkdómar
 • Alvarleg veikindi eða sýkingar
 • Offita
 • Kæfisvefn
 • Ættarsaga eða erfðir
 • Aldur yfir 60 ára.

 

 

f.h. Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Bryndís Erlingsdóttir, hjúkrunarfræðingur Heilsugæslutöðvar Selfoss