Gamlárspistill forstjóra

30. desember 2016

 

 

 

 

 

 

 

 

Kæra samstarfsfólk.

 

Það er von mín að þið hafið öll notið jólahátíðarinnar og til ykkar sem stóðuð vaktina um jólin eða munuð gera slíkt um áramótin vil ég færa sérstakar þakkir. Það er alltaf sérstakt að vera fjarri heimili sínu þessa hátíðisdaga vegna skyldustarfa.  Að sama skapi er það mikils virði að geta skapað öruggt umhverfi fyrir sjúka og mæta þörfum þeirra sem eiga við veikindi að glíma.  Það er því í huga mínum alltaf gefandi og gleðileg tilhugsun að standa vaktina um jól eða áramót, eins og ég hef sjálf margoft gert.

 

Þegar horft er til baka yfir aflíðandi ár er ótal margt sem kemur upp í hugann.  Þar á meðal er sú mikla vinna sem lögð hefur verið í að endurskipuleggja rekstur HSU í heild sinni samhliða geysimikilli aukningu í verkefnum.  Aldrei fyrr hefur HSU þurft að sinna jafn mörgum verkefnum og nú en fjárframlög þessa árs voru í upphafi um 8% undir því sem eldri stofnanir sem tilheyra HSU fengu fyrir hrun árið 2008.  Það hefur því verið vandasamt og tímafrekt verkefni, en algjörlega nauðsynlegt, að velta við hverjum steini í rekstri stofnunarinnar.  Okkur tókst eftir mikinn þrýsting í kostnaðaraukningu á fyrri hluta ársins að stemma stigu við því að í algjört óefni færi í árslok og náðum að koma rekstrinum í jafnvægi, en þó með í farteskinu þann halla sem þegar var til staðar.  Til lengri tíma er það bæði slítandi og erfitt fyrir orðspor stofnunarinnar að stofna til vanskila við viðskiptamenn.  Slæmar rekstrarhorfur valda líka alltaf óvissu meðal starfsmanna og það er slæm staða. Við höfum því ötullega unnið að því að greina rekstararlegar forsendur og gert Velferðarráðuneyti og öðrum hagsmunaðilum viðvart að ekki sé hægt að halda áfram óbreyttum rekstri í heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi með óbreytta fjármögnun.

 

Það er því með ánægju að ég get tilkynnt ykkur að sú vinna sem framkvæmdastjórn hefur unnið ötullega að ásamt ykkur öllum hefur skilað sér. Við höfum átt í góðri samvinnu við ráðuneyti og aðra aðila. Nú í árslok barst mér bréf frá Velferðarráðuneyti þess efnis að 80 millj. kr. hafi verið veitt til HSU frá ráðneytinu upp í rekstrarhalla ársins 2016 og jafnframt til tækjakaupa. Einnig hefur Fjárlaganefnd Alþingis samþykkt að veita aukalega á þessu ári  150 millj. kr. á sjúkrasvið HSU í samræmi við fjáraukalög 2016 sem samþykkt voru í þinginu nú rétt fyrir jólin. Féð hefur verið nýtt til að greiða upp vanskil síðustu mánaða og greiða kostnað við nýtt röntgentæki á Selfossi. Það er því alveg sérstakt gleðiefni að nú í fyrsta sinn frá sameiningu heilbrigðisstofnanna á Suðurlandi er HSU með heilbrigðan efnahag, rekstrarreikning ársins í jafnvægi og byrjar nýtt ár án þess að vera með greiðsluhalla gagnvart Ríkissjóði.

 

Ég þreytist heldur ekki á því að færa ykkur þakklæti mitt fyrir einurð ykkar, úthald og fagmennsku.  Eins vil ég færa velunnurum okkar öllum sérstakar þakkir fyrir þeirra óeigingjarna starf.

 

Ég hlakka til komandi árs og sér í lagi að geta nú sett enn meiri orku í áframhaldandi faglega uppbyggingu í heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi. Við getum verið stolt af framlagi okkar til heilbrigðisþjónustunnar.

 

 
Við óskum ykkur gleðilegs nýs árs og þökkum ykkur samstarfið á árinu.

Fyrir hönd framkvæmdastjórnar HSU,

Herdís Gunnarsdóttir

Forstjóri HSU