Gamlárspistill forstjóra

31. desember 2017

 

Nú undir lok ársins gott að líta yfir farinn veg og skoða hvað hefur áunnist.  Um áramót förum við gjarnan í huganum yfir það sem borið hefur hæst hjá okkur persónulega á árinu.  Það er gott að rifja upp gleiðistundirnar og stóru og smáu augnablikin sem verða að dýrmætum minningum. Hjá sumum okkar hefur árið líka borið til okkar sorgarstundir og jafnvel ástvinamissi.

 

Störfin okkar eru þess eðlis að oft skiptast á skin og skúrir, en í flestum tilfellum fáum við að takast á við gefandi verkefni með þeim sem til okkar leita og fáum að sjá ávöxtinn af starfi okkar. Við getum glaðst yfir því að í heildina litið hefur starfsemin hjá okkur gengið vel þó svo að við viljum oft geta gert enn betur en fjárhagslegt bolmagn leyfir okkur.  Við megum hins vegar ekki gleyma því að hlúa hvert að örðu þegar upp koma erfið mál og krefjandi aðstæður í störfum okkar.  Það er mikivægt að við séum meðvituð um okkar eigin álagspunkta og við viljum gera það sem í okkar valdi stendur til að draga úr áhrifum af langvinnu álagi. Okkur er einnig ljóst að bæta þarf vinnuastöðu víða og þann búnað sem við höfum til umráða.  Hægt og sígandi eru breytingar á húsnæði að skila sér, á Kirkjubæjarklaustri, Selfossi og í Vestmannaeyjum til að bæta vinnuaðstöðu og þjónustu við íbúa.  Við munum halda áfram á þeirri braut.

 

Ég vil sérstaklega þakka velunnurum okkar og líknarfélögum fyrir ómetanlegan stuðning á árinu. Án þeirra væri ekki hægt endurnýja hluta af þeim lykilbúnaði og tækjum sem þarf til að veita heilbrigðisþjónustu.  Á árinu 2017 voru um 40 milljónir króna af gjafafé nýttar til tækjakaupa. Framlög hins opinbera til tækjakaupa í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni hafa hins vegar verið í sögulegu lágmarki síðasta áratug enda skortir innsæi og þekkingu þeirra sem telja tíund af raunverulegri þörf dugi til tækjakaupa. Með gjöfum velunnara okkar felst hlýhugur og viðurkenning á mikilvægu framlagi starfa okkar fyrir heilbrigði landsmanna.  Fyrir það erum við sannarlega þakklát.

 

Það er ánægjulegt hve vel okkur hefur tekist að manna nánast allar stöður lækna á árinu, en á árinu hófu störf hjá okkur 5 nýir læknar. Allar stöður hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra, sálfræðinga, annarra heilbrigðisstarfsmanna og starfsfólks eru setin. Starfsmenn HSU eru lykillinn að þeim árangri sem næst.  Við höfum sýnt og sannað, þegar á reynir, hvers megnug við erum og engann þarf að kvíða komandi ári með þann mannauð sem við höfum.  Þrátt fyrir að okkur skorti nýrri og betir búnað til starfa þá erum við stolt af samstarfsfólki okkar. Í vor samþykktum við endurskoðaða jafnréttisáætlun þar sem m.a. er kveðið á um aðgerðir sem við höfum nýtt okkur þegar kemur að kynbundnu misrétti, sem réttilega hefur verið dregið fram í dagsljósið síðustu misseri. Í nýlegri starfsumhverfiskönnun sem ríflega helmingur starfsmanna HSU svöruðu komu í ljós ánægjulegar niðurstöður. Af hópnum okkar eru 90% starfsfólks stolt af starfi sínu á HSU.  Um 95% þeirra sem svöruðu telja að þekking og færni þeirra nýtist vel í starfi og 96% lýsa sig reiðubúin að taka þátt í að innleiða nýjungar til að bæta þjónustu stofnunarinnar.  Það er því ánægjulegt að sjá að okkur er ekkert að vanbúnaði að halda áfram á þeirri braut.

 

Aldrei hafa fleiri leitað til okkar á heilsugæslu, bráðamóttöku og á sjúkrahúsin, en á þessu ári. Tugum hjúkrunarrýma var lokað tímabundið á Suðurlandi og höfum við fundið verulega fyrir þeim breytingum.  Við viljum hlúa vel að öllum og gera okkar besta hvort sem það er fyrir aðhlynningu eldri borgarana, meðferð sjúklinga og viðbragð við bráðatilfelli í umdæmi okkar.  Stafsemin eykst stöðugt og við erum vel í stakk búinn sem starfshópur að ráða við öll þau verkefni sem okkur ber að leysa. Við höfum sýnt það og sannað hvers megnuð við erum.  Skemmst er að minnast þess bæði þegar upp kom hópsýking á Úlfljóstsvatni og nú nýlega við hópslys í Eldhrauni að við erum vel í stakk búinn að ráða við verkefni af slíkri stærðargráðu í samvinnu við okkar góðu viðbragðs- og samstarfsaðila. Við látum þröngan fjárhag ekki stöðva okkur í að ástunda fyrirmyndar samvinnu, koma fólki til bjargar í neyð og stíga fram af yfirvegun og fagmennsku.

 

Ég þreytist heldur ekki á því að færa ykkur þakklæti mitt fyrir einurð ykkar, úthald, hæfileika og fagleg vinnubrögð. Það eru forréttindi að stafa með ykkur. 

 

Ég hlakka til komandi árs og sér í lagi að geta nú sett enn meiri orku í innleiðingu nýjunga og uppbyggingu í heilbrigðismálum á Suðurlandi. Við erum stolt af framlagi okkar til heilbrigðisþjónustunnar.

   
Við óskum ykkur gleðilegs nýs árs og þökkum ykkur samstarfið á árinu. Sérstakar þakkir til ykkar sem standið vaktina yfir hátíðarnar.

 

 

Fyrir hönd framkvæmdastjórnar,

Herdís Gunnarsdóttir forstjóri HSU.