Gallblöðrutaka

Framkvæmd aðgerðar
Aðgerðin er framkvæmd með kviðarholsspeglunartækjum.  Gerð eru fjögur göt þar sem speglunartækin eru sett inn. Lofti er dælt inn í kviðarholið til að fá öruggt rúm til skoðunar innri líffæra og framkvæmd aðgerðar. Í lok aðgerðar er lofti hleypt út aftur og götin saumuð saman. Í sumum til-vikum er ekki hægt að taka gallblöðruna á þennan hátt og þá þarf að gera holskurð.
Mikilvægt er að hætta á blóðþynningarlyfjum 7 dögum fyrir aðgerð—þó alltaf í samráði við lækni.

Undirbúningur fyrir aðgerð
Þú mætir á legudeildina á II. hæð HSu kl. 10:00 daginn fyrir aðgerð. Þú þarft ekki að vera fastandi.
Hjúkrunarfræðingur tekur á móti þér, fær hjá þér nauðsynlegar upplýsingar, fer yfir þennan bækling með þér og sýnir þér deildina.
Fyrir aðgerðina verður þú undirbúin(n) með naflahreinsun og þú færð hægðalosandi lyf í endaþarm.
Margir fá blóðsegaverjandi lyf, sprautað undir húðina, kvöldið fyrir aðgerð.
Tekin verður af þér sjúkraskýrsla og svæfingalæknir ræðir við þig.
Einnig verður tekið úr þér blóðsýni.
Þú ferð í sturtu um kvöldið og þarft að vera fastandi frá miðnætti, þ.e.a.s. mátt hvorki borða, drekka né reykja frá þeim tíma.
Mikilvægt er að þú hvílist vel nóttina fyrir aðgerð.


Það sem þarf að hafa meðferðis:
Lyf eða lyfjakort,
náttslopp, inniskó og snyrtiáhöld.


Að morgni aðgerðardags
Til að undirbúa svæfingu færð þú forlyf, töflu um 1/2—1 klst fyrir aðgerð.        Áður þarft þú að tæma þvagblöðruna en. eftir það mátt þú ekki fara fram úr rúminu nema í fylgd starfsfólks.


Þú þarft að fjarlægja gleraugu, linsur, alla skartgripi, naglalakk og andlitsfarða fyrir aðgerð. Lausar tennur má hafa með sér á skurðstofu.
Fyrir aðgerðina sem tekur u.þ.b. 1 1/2 – 2 klst. er gefið sýklalyf til að fyrirbyggja sýkingar.
Eftir aðgerð
Þú vaknar fljótlega á vöknunarherbergi. Fylgst verður með blóðþrýstingi og hjartslætti í 2-3 klst. Þú verður með næringarvökva í æð þangað til þú færð að drekka en borðar daginn eftir aðgerðina eitthvað létt (brauð og súpur).
Verkir: Þú færð litla verki í skurðsárin en getur fengið óþægindi innan um þig og upp í axlir, “harðsperrur”, vegna lofts sem verður eftir í kviðarholi eftir aðgerð. Þetta jafnar sig á 1-2 dögum. Þú færð verkjalyf eftir þörfum.
Athugaðu að fara ekki fram úr rúmi í fyrsta sinn nema með aðstoð.
Ekki reykja fyrr en þú hefur borðað og áhrif svæfingarlyfja eru horfin.


Heimferð:
Oft er heimferð daginn eftir aðgerð en fer þó eftir líðan þinni.
Vinna: Þú getur byrjað að vinna eftir u.þ.b. 1-2 vikur nema læknirinn ráðleggi þér annað.
Kynlíf: Þú mátt hafa samfarir þegar þú treystir þér til eftir aðgerðina, nema læknirinn ráðleggi þér annað.
Yfirleitt þarf ekki að taka sauma þar sem þeir eyðast af sjálfu sér en ráðlagt er þó að láta hjúkrunarfræðing á heilsugæslustöð líta á sárin 6-7 dögum eftir aðgerð.
Fæði:  Byrjað er á tæru fljótandi fæði og það síðan aukið smám saman eftir aðstæðum þar til þú getur borðað almennt fitusnautt fæði eftir þoli. Ráðlegast er að borða hóflega    annars er hætta á ógleði.
Fyrsta árið eftir gallblöðrutöku er sjúklingum ráðlagt að halda sig frá allri fitu, eggjum og ráðlagt að afhýða epli, perur og jafnvel agúrkur. Einnig ber að forðast mjög steiktan og brasaðan mat.


Hvað ber að varast
Sýkinga– og blæðingahætta við þessa aðgerð er óveruleg. Þú skalt þó ekki fara í sund eða baðkar og forðast mikla áreynslu meðan sárin eru að gróa, í um vikutíma. Þú mátt fara í sturtu.
Hafðu samband við deildina, síminn er      482 1300 eða lækninn þinn ef þú ert í vafa um eitthvað eða einhver vandamál koma upp.


Athugaðu !
Þessar upplýsingar eru engan veginn tæmandi. Það geta orðið ýmis óhjákvæmileg frávik. Hikaðu ekki við að biðja okkur um nánari upplýsingar.


Með kveðju
Starfsfólk legu-og skurðdeildar HSu