Gáfu sjúkraflutningsmönnum spjaldtölvur

21. maí 2011 varð slys í Sundhöll Selfoss og þann 22. maí lést Vilhelm Þór, 5 ára gamall, á Landspítalanum við Hringtorg. Í kjölfarið var stofnaður söfnunarreikningur í hans nafni, blóm og kransar voru afþakkaðir af foreldrum hans og nú ári síðar, mánudaginn 21. maí voru þau, ásamt systkinum Vilhelms Þórs og nánum aðstandendum mætt í Björgunarmiðstöðina á Selfossi til þess að afhenda sjúkraflutningamönnum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, tvær Lenovo spjaldtölvur til notkunar í útköllum.

 

Með spjaldtölvutækninni hefur opnast sá möguleiki að sjúkraflutningamenn, geta tengst gangagrunnum og ýmsum öðrum hjálparforritum sem hjálpa til við að veita sjúklingum sem besta meðferð hverju sinni úti á vettvangi.

Til dæmis að vera með sérhæfða lyfjareikna fyrir börn og fullorðna, ritun upplýsinga í sjúkraskýrslur, þannig að upplýsingar um meðferð og ástand sjúklinga komist strax í hendur á því heilbrigðisstarfsfólki sem tekur við á slysa- og bráðamóttökum. En nú þegar hafa sjúkraflutningamenn yfir aðráða tækni til þess að senda hjartalínurit beint á bráðamóttökur og þetta er bein viðbót við þá tækni.

Möguleikarnir sem þessi tæki hefur upp á að bjóða eru óþrjótandi. Nú þegar er í skoðun að í framtíðinni muni Neyðarlínan geta sent sjúkraflutningamönnum nákvæmar staðsetningar þess sem er veikur eða slasaður, á korti, ásamt frekari upplýsingum ástand beint í tölvurnar.

 

Sjúkraflutningamenn HSu þakka kærlega fyrir rausnarlega gjöf sem á svo sannarlega eftir að verða að gagni fyrir þá sem þurfa á þjónustu sjúkraflutningamanna að halda.

 

Á meðf. mynd eru:

Steinar Rafn Garðarsson, sjúkraflutningamaður, Elísa Björk (mamma), Sóley Björk (systir), Tómas Valur (bróðir) og Guðmundur Friðmar (pabbi), Ármann Höskuldsson, yfirmaður sjúkraflutninga HSu.