Gáfu heimagerða bangsa til HSU

Nýverið fékk heilsugæslan á Kirkjubæjarklaustri gefins nokkra heimagerða bangsa. Þeir eiga að vera á heilsugæslunni sjálfri og líka í sjúkrabílnum. Hugmyndin er að gleðja lítil börn sem af einhverjum orsökum verða að heimsækja heilsugæsluna eða neyðast til ferðast með sjúkrabílnum. Þá geta svona falleg litrík bangsaskott stundum náð að stöðva lítil tár og hugga meidd og hrædd hjörtu, stundum þarf ekki meira til.

Það voru konur í Öræfum ásamt Ladies Circle konum í Reykjavík í klúbbi 4 sem prjónuðu bangsana, en Ungmennfélagið í Öræfum greiddi efniskostnað fyrir konurnar þar.
Heilbrigðisstofnun Suðurlands og starfsfólk á Kirkjubæjarklaustri þakkar þessum góðu konum og Ungmennafélaginu kærlega fyrir gjöfina og þann góða hug sem að baki býr.