Gæðastyrkur Velferðaráðauneytisins veittur heilsugæslu HSu

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur ákveðið að veita gæðastyrki til átta verkefna í velferðarþjónustu sem tengjast samþættingu heilbrigðis- og félagsþjónustu og stuðla að umbótastarfi, nýbreytni eða auknum gæðum þjónustunnar. Styrkirnir nema samtals 2,4 milljónum króna. 

Alls barst 61 umsókn um styrki hvaðanæva af landinu. Úthlutunarnefnd skipuð þremur fulltrúum velferðarráðuneytisins lagði mat á umsóknirnar og gerði tillögu til ráðherra um styrkveitingarnar til verkefnanna átta. Styrkirnir nema á bilinu 200-400 þúsund krónum.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands,  fyrir hönd  heilsugæslunnar á Selfossi,  hefur hlotið gæðastyrk Velferðarráðuneytisins 2011. Gæðaverkefnið nefnist „Innleiðing RAI HC í heimaþjónustu og árangursmæling“ og er styrkupphæðin 400.000 kr. Verður þetta verkefni byggt á meistararannsókn Unnar Þormóðsdóttur hjúkrunarstjóra heilsugæslunnar á Selfossi og hefur vinna nú þegar verið hafin við rannsóknina.

Til að ákvarða þjónustuþörf í heimahúsi hefur matstæki sem nefnist interRAI HC  verið þróað með það í huga að skoða ýmsa þætti sem lúta að öldruðum. Tækið er notendavænt, öruggt og einstaklingsmiðað. Það metur heilsufar og hjúkrunarþarfir einstaklinga sem njóta heilbrigðis- og heimilisþjónustu í heimahúsum, auk þess sem það metur hvernig þeir svara meðferðinni. Mælitækið beinir athyglina að starfsgetu fólks og lífsgæðum með því að meta þarfir, styrkleika og óskir þess. Tækið samanstendur af 300 spurningum sem hjúkrunarfræðingar afla svara við, á heimili einstaklingsins, bæði með beinum spurningum og með klínísku mati. Við mat á gæðum þjónustu er stuðst við gæðavísa sem skilgreindir hafa verið af hópi sérfræðinga með Delphi aðferð. Markmið gæðavísanna er að finna þá þætti sem má laga í umönnun.  Þeir eru tölulegar upplýsingar í formi hlutfalls, sem segja til um gæði eða gagnsemi skilgreindra verkferla. Þeir gefa stjórnendum og starfsfólki vísbendingar um  það sem vel er gert og það sem betur má fara.