Gæðadagur rannsókna á HSu

Þann 5. febr. sl. voru læknar og lífeindafræðingar HSu með sameiginlegan gæðadag. Þar var farið yfir þær rannsóknir sem gerðar eru á HSu og hvernig framtíðin geti verið. Markmið dagsins var að bæta gæði rannsókna, skoða hvernig við gerum núna og hvernig við getum bætt okkur. Sérfræðingar frá Landspítala (LSH) komu og héldu erindi, ásamt því að sérfræðingar á HSu voru með erindi. Á rannsóknastofu HSu eru gerðar yfir 100 000 rannsóknir á ári og var heildarkostnaður á sl ári 65 milljónir króna. Að auki keypti HSu rannsóknir fyrir 40 milljónir hjá öðrum rannsóknarstofum. Mjög mikilvægt er að fara sem best með þessa fjármuni og sennilega aldrei mikilvægara en núna.


 

Rannnsóknastofa HSu er sífellt í framþróun og gerir fleiri rannsóknir en áður. Þá er unnið að því bæta tækjakost til að geta gert sem mest sjálf og kaupa sem minnst annars staðar frá en þannig er m.a. hægt að efla atvinnulíf á staðnum.


Nú er unnið að beintengingu við rannsóknastofu LSH og mun hún komast á í byrjun mars nk. Þá verða allar rannsóknir sem gerðar eru á LSH aðgengilegar læknum HSu og öfugt. Þetta er gert til að tryggja gæði þjónustunnar og auka öryggi sjúklinga.


Á þennan fræðsludag komu læknar og lífeindafræðingar frá öllum heilsugæslustöðvum HSu. Þá var í fyrsta skipti útsending um fjarfundabúnað frá HSu og því gátu læknar Heilbrigðisstofnunarinnar á Höfn í Hornafirði tekið þátt í gæðadeginum.