Fyrsta inflúensutilfelli vetrarins

„Fyrsta inflúensutilfelli vetrarins hefur verið staðfest á veirufræðideild Landspítala. Inflúensan greindist í íslenskum ferðamanni sem var að koma frá Suður-Asíu og er af stofni inflúensu A(H3) sem hefur valdið árlegri inflúensu síðastliðna áratugi. Ferðamaðurinn var í hópi Íslendinga og veiktust margir í hópnum með inflúensulíkum einkennum. Það er því hugsanlegt að inflúensan nái útbreiðslu hér á landi á næstu vikum. Til greina kemur að meðhöndla inflúensu með veirulyfjum að undangengnu mati læknis.

Sóttvarnalæknir hvetur þá sem eru í áhættuhópi að láta bólusetja sig gegn inflúensunni, en eftirfarandi hópar eiga kost á að fá bóluefnið sér að kostnaðarlausu:

·         allir einstaklingar 60 ára og eldri

 *   öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum

 *   heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í þessum áhættuhópum

·         barnshafandi konur

Lítið er um inflúensu í nágrannalöndum okkar samkvæmt inflúensuvöktun sóttvarnastofnunar Evrópu (European Centre for Disease Prevention and Control – ECDC<http://www.ecdc.europa.eu/en/Pages/home.aspx>), stök tilfelli hafa verið staðfest í Noregi og Svíþjóð.

Ráðlegt er að halda kyrru fyrir þegar einkenni inflúensu eru í hámarki til að draga úr útbreiðslu smits og hylja vit við hósta og hnerra. Einnig er góður handþvottur góð leið til að hindra smit manna á milli.

Nánari upplýsingar um inflúensu er hægt að nálgast á www.influensa.is<http://www.influensa.is>“