Þessa viku er kjördæmavika og í dag heimsóttu tveir þingmenn Suðurlands HSU og áttu fund með framkvæmdastjórn stofnunarinnar. Á fundinn mættu þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þau Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, 2. þingmaður Suðurkjördæmis og Vilhjálmur Árnason, 9. þingmaður Suðurkjördæmis. Þau áttu stuttan og góðan fund með framkvæmdastjórn HSU þar sem farið var yfir rekstrarstöðu stofnunarinnar í upphafi árs og rekstrarhorfur. Rætt var um hlutverk stofnunarinnar í umdæminu og þau fjölmörgu tækifæri sem liggja í nýjungum í útfærslu á þjónustunni, íbúum til hagsbóta. Það er þó skilyrði fyrir framþróun og áframhaldandi uppbyggingu á stofnuninni að skuldavandi eldri stofnanna sé leystur. Mikilvægi þess að ný stofnun HSU gæti starfað með jákvæðan efnahagsreikning í stað þess að draga með sér skuldir og neikvæða rekstrarstöðu fyrri stofnana. Skuldastaða stofnunarinnar er ekki góð og það liggur á að leysa þann rekstrarvanda sem HSU fékk í arf við sameininguna. Einnig var rætt um gífurlega aukningu í þjónustunni en á Suðurlandi eru yfir 50.000 komur er til lækna og hjúkrunarfræðinga í heilsugæslu, nær 1000 innlagnir í sjúkrarými, yfir 15.000 komur á bráðamóttöku, yfir 6000 myndgreiningarrannsóknir og yfir 3200 útköll vegna sjúkraflutninga á árinu 2015. Aukna þjónustuþörf má að mestu leyti rekja til hratt vaxandi fjölda innlendra og erlendra ferðamanna á Suðurlandi. Rekstur HSU er nú í rýni og endurskoðun til að leita stöðugt leiða til að nýta sem best það fjármagn sem fæst til rekstursins. Framkvæmdastjórn HSU lagði áherslu á mikilvægi þess að fjármagn fylgi þeim verkefnum sem stofnuninni er gert að sinna, til að stofnunin hafi bolmagn til að sinna vel grunn heilbrigðisþjónustu í umdæminu.
Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.