Frunsur

Helga THorbergsFrunsur (áblástur) lýsa sér með útbrotum þéttskipaðra vessafylltra blaðra sem mynda sár. Hér er um að ræða veirusýkingu af völdum svokallaðra herpesveira. Þetta er algeng sýking og talið er að allavega annar hver maður sé smitaður af veirunni. Hafi maður smitast, varir smitið ævilangt og engin varanleg lækning er til. Flestir smitast í barnæsku en hægt er að smitast hvenær sem er ævinnar. Það er vessinn í blöðrunum sem er smitandi, hann inniheldur veirur og getur, við snertingu, smitað hvort sem er annan einstakling eða borist víðar á líkama þess sem frunsuna hefur. Langalgengast er að útbrot komi við varir en í raun geta þau brotist fram hvar sem er á líkamanum. Varúð og hreinlæti skipta því máli hér.

 

Það má segja að herpesveiran sé leiðinlega tækifærissinnuð. Hún lúrir við taugarætur þess smitaða og svo þegar varnir líkama hans veikjast t.d. vegna álags, tíðablæðinga, sterks sólarljóss, kulda eða kvefs þá grípur veiran tækifærið og „trítlar“ eftir tauginni, brýst fram í húðfrumurnar og sár myndast. Það er einstaklings- og líklega aðstæðubundið hversu langur tími líður á milli þess sem veiran myndar sár. Almennt dregur þó úr tíðni sáramyndana með hækkandi aldri þess sem hýsir veiruna. Herpes sýking getur verið hvimleið en er sjaldnast hættuleg. Þó getur hún orðið skeinuhætt fólki með bælt ónæmiskerfi og nýfæddum börnum. Eins ber að varast að hún berist í augu. Herpes simplex eins og veiran heitir fullu nafni er af tveim gerðum tegund 1 sem er mun algengari og er eins og áður sagði algengust við varir og svo tegund 2 sem kemur aðallega fram kringum kynfæri.

 

 Það er sem sagt ekki hægt að losna við veiruna en hægt er að fá áburð, án lyfseðils, sem dregur úr einkennum í húð. Þá þarf að hefja meðferð áður en blöðrur myndast og um leið og fyrstu einkenna verður vart. Í erfiðum tilfellum er stundum gripið til töflumeðferðar, þeim lyfjum verður læknir að ávísa. 

 

 

f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Helga Þorbergsdóttir

Hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar í Vík