Frétt vegna inflúensu frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Undanfarið hefur borið mikið á sýkingum á upptökusvæði HSu. Bæði er um að ræða dæmigerð inflúensueinkenni en einnig kvefpestir. Munur er á þessum sýkingum og gott fyrir fólk að muna eftirfarandi:Við Inflúensu er hiti hár, verulegir beinverkir, versnun hröð og höfuðverkir miklir en einkenni lítil frá nefi. Matarlyst er takmörkuð og veikindi upplifast töluverð. Orsökin er veirusýking sem oftast batnar á 4-5 dögum og besta meðferðin er að fara vel með sig og taka hitalækkandi lyf eða verkjalyf eftir þörfum. Sjaldan er ástæða að leita læknis, sérlega ef einkenni láta vel undan venjulegum verkjalyfjum.

-Við kvefpestir er hiti lágur, beinverkir vægir, hæg versnun, vægur höfuðverkur og einkenni frá nefi áberandi með óbreyttri matarlyst og vægum almennum einkennum. Orsökin er langoftast veirusýking, sýklalyf gera sjaldan eða aldrei gagn en einkenni eru langdregnari en við Inflúensu. Hér er einnig sjaldnast þörf að leita læknis en þó kemur í stöku tilfellum upp vandamál, s.s. eyrnabólga eða lungnabólga og þá versnar fólki oftast frekar er líður á og ástæða að leita læknis.


Óskar Reykdalsson
Lækningaforstjóri Hsu