Frétt tekin af heimasíðu Heilbrigðisráðuneytisins

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur ákveðið að fjölgað verði hjúkrunarrýmum við Heilbrigðisstofnun Suðurlands.Þetta verður gert með því að byggja þriðju hæðina í viðbyggingu við Heilbrigðisstofnun Suðurlands, en í fyrstu áttu hæðirnar að vera tvær. Á 3. hæðinni er fyrirhugað að verði 20 til 24 vistrými sem bætast við þau 19 rými sem verða á 2. hæð viðbyggingar og er þá miðað við að einmennt verði í öllum stofum, enda leggur heilbrigðisráðherra áherslu á þetta atriði. Undanfarin hálft annað ár hafa staðið yfir framkvæmdir við viðbyggingu við Sjúkrahúsið á Selfossi. Í þessari viðbyggingu var fyrirhugað að yrði heilsugæslustöð á 1. hæð, en hjúkrunardeild fyrir aldraða á 2. hæð. Framkvæmdir við uppsteypu hússins og innréttingu hjúkrunardeildar voru boðnar út í október 2004 og gerður um það verksamningur við JÁ-verktaka. Verklok samkvæmt þessum samningi voru 1. febrúar 2007. Bæjarstjórn Árborgar ályktaði á dögunum um ákvörðun ráðherra: “Bæjarstjórn fagnar ákvörðun heilbrigðisráðherra um að byggja þriðju hæðina ofan á viðbyggingu sem nú er unnið að við Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. Á hæðinni er gert ráð fyrir hjúkrunardeild fyrir aldraða. Bæjarstjórn lýsir yfir ánægju með að á þriðju hæðinni verði lögð áhersla á að vistmenn búi í  einbýli og að sköpuð verði sérstök aðstaða fyrir heilabilaða.”