Framkvæmdir við nýbyggingu HSu á Selfossi munu hefjast að nýju á næstu dögum. Sú ákvörðun, sem teknin var fyrr á þessu ári að bæta 3. hæðinni á nýbygginguna, olli því að leggja þurfti talsverða vinnu í hönnun í tengslum við þær breytingar, sem fylgja þessari hækkun á byggingunni. Samningar við verktaka vegna þessarar stækkunar munu nánast vera í höfn og hefur verktaki fengið heimild til að halda áfram með framkvæmdir.
Fyrsti áfangi verksins felur í sér uppsteypu á húsinu, frágang á einni hjúkrunardeild (2. hæðin), anddyri og afgreiðslu, ásamt frágangi utanhúss og á lóð. Eftir er að taka ákvörðun um verklok seinni áfanga byggingarinnar, sem eru önnur hjúkrunardeild (3ja hæðin), heilsugæslustöð á 1. hæð, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun ofl. sameiginleg rými í kjallara, ásamt byggingu nýrrar setustofu fyrir sjúkradeild á 2. hæð í eldri byggingunni. Byggt verður yfir núverandi svalir við suðurenda byggingarinnar og setustofu komið þar fyrir. Þá þarf að gera talsverðar breytingar á 1. hæð í eldri byggingunni, flytja rannsóknastofu, stækka matsal ofl.
Þrátt fyrir að þessi stækkun hafi valdið nokkurri töf á byggingaframkvæmdum þá er mest um vert, að þessi stækkun þýðir, að í nýbyggingunni verða tvær 20 rýma hjúkrunardeildir, samtals 40 rými, í stað einnar 26 rýma deildar. Eingöngu verður um einbýli að ræða og gert er ráð fyrir aðstöðu fyrir heilabilaða.