Fræðslustarf á HSu

Á HSu fer fram mikið fræðslustarf. Í nokkur ár hefur verið samstarf við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri um fræðslu í gegnum fjarfundabúnað. Frá Landspítala háskólasjúkrahúsi hefur einnig verið miðlað fræðsluerindum frá bæði barna- og öldrunarlækningadeild.

Nýlega hófust svo fundir frá Læknaráði LSH. Þetta er til þess að tryggja símenntun lækna og eru fundir mjög fróðlegir og vandað til verksins. Nú eru að hefjast fræðslufundur fyrir hjúkrunarfræðinga og eru þeir frá
Barnaakademíunni á LSH og er fyrsti fundurinn 8. nóv. nk.


Óskar Reykdalsson, lækningaforstjóri og Sveinn M. Sveinsson, yfirlæknir á handlæknissviði HSu fylgjast með fyrsta fjarfundinum frá Læknaráði LSH.


Þann 24. okt. sl. var fræðsludagur fyrir alla læknaritara sem starfa á HSu, þ.e. allt frá Kirkjubæjarklaustri í austri og Þorlákshöfn í vestri. Fyrir hádegi var fræðsla um Sögu kerfið og samræmingu í skráningu sem Ingunn Sigurjónsdóttir, læknafulltrúi á HSu sá um. Einnig fór Guðrún Edda Haraldsdóttir, móttökuritari yfir þann hluta Sögu sem snýr að bókunum og áætlanagerð. Eftir hádegi voru svo fræðsluerindi sem Ágúst Örn Sverrisson, lyflæknir og Hallgrímur Þ. Magnússon, svæfingalæknir sáu um. Alls voru 15 læknaritarar mættar á fundinn og er ákveðið að framhald verði á þessu fræðslustarfi.


Læknaritarar fylgjast með erindi Hallgríms Magnússonar, svæfingalæknis.


Reglulegt fræðslustarf er einnig fyrir starfsfólk á legudeildum HSu og þann 24. okt.sl.sagði Ólöf Á. Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur frá ráðstefnu sem hún sótti nýlega á Akureyri og fjallaði hún um Krabbamein og líkn.