Fræðslufundur um inflúensufaraldur

Í gær fjölmennti starfsfólk HSu á fræðslufund um inflúensu (fuglaflensu) og varnir gegn henni. Haraldur Briem, sóttvarnalæknir og Ása St. Atladóttir, hjúkrunarfræðingur, bæði starfsmenn Landlæknisembættisins fræddu starfsfólk HSu um þær ógnir sem stafa af heimsfaraldri inflúensu. Haraldur lýsti áhrifum sem svokölluð spánskaveiki hafði hér á landi árið 1918 og bar saman einkenni hennar og einkenni inflúensu (fuglaflensu H5N1). Hann fór yfir markmið viðbúnaðar gegn heimsfaraldri inflúensu sem felast m.a. í því
að hindra að faraldur berist til landsins sé þess kostur,
að draga úr útbreiðslu hans innan landsins eftir því sem unnt er,
að lækna og líkna sjúkum, vernda þá sem greina og stunda sjúka
og vernda þá sem viðhalda lífsnauðsynlegri starfsemi í landinu.
Ása St. Atladóttir, hjúkrunarfræðingur fór yfir gagnsemi hlífðarbúnaðar og þjálfun í notkun hans. Hún hvatti starfsfólk til þess að nota þetta tækifæri til að fara yfir þær reglur sem gilda þegar smitsjúkdómar koma upp og að skerpa á vinnureglum um hreinlæti o. fl.
Um 60 – 70 starfsmenn sóttu fundinn og var gerður góður rómur að erindum þeirra Haraldar og Ásu.