Úlnliðsbrot

Úlnliðsbrot : Það er kallað úlnliðsbrot þegar annað eða bæði framhandleggsbeinin, öln og sveif brotna rétt fyrir ofan úlnlið. Þessi brot eru algeng hjá börnun og eldra fólki.
 
Greining og meðferð :
• Lega og eðli brotsins er greint með röntgenmyndatöku
• Brot sem liggur vel fær stuðning með gipsspelku meðan það grær í 4 – 6 vikur.
• Ef brotið er tilfært er það rétt af í deyfingu og sett gipsspelka til stuðnings í 4 – 6 vikur.
• Ef brotið er tilfært og óstöðugt þá þarf að kyrrsetja það með pinnum og ytri ramma, sem gert er á skurðstofu.
 
Gips : Gips er sett til að halda réttri legu brotsins og minnka verki. Forðast skal átök sem og lyfta þungum hlutum.
 
Eftirlit: Venjulega er eftirlit með broti 7 – 10 dögum frá áverka. Þá er gjarnan tekin röntgenmynd til að staðfesta legu brotsins og umbúðir/gips skoðaðar og lagfærðar ef þarf.
Frekara eftirlit fer eftir legu brotsins og gróanda.
Ef brot hefur aflagast getur þurft að rétta það.
 
Verkir : Þegar bein brotna blæðir fá beinendanum út í vefina og það veldur bólgu og verkjum.
Mikilvægt er að reyna minnka bólgumyndun. Það er gert með því að hafa hátt undir höndinni, þannig að fingur liggi hærra en olnbogi.
Það er eðlilegt að vera með verk í úlnliðnum fyrstu dagana eftir brotið. Mesti verkurinn hverfur á fyrstu dögunum.
Verkjatöflur eins og paracetamól og parkódín í ráðlögðum skömmtum virka vel á verkina oftast nær. Ekki er ráðlegt að taka inn bólgueyðandi lyf (t.d íbúfen) það seinkar beingróanda.
 
Hafðu samband við heilsugæslu ef :
• Gips meiðir þig eða særir
• Gips er of þröngt eða of vítt
• Gipsið brotnar eða blotnar
• Þroti eða bólga eykst í fingrum
• Fingur dofna
• Fingur verða óeðlilega bláir eða kaldir
• Verkir fara vaxandi
 
Æfingar í gipsumbúðum :
• Kreppa hnefann og rétta vel úr fingrum. Gott er að hafa svampbolta í lófanum við þessa æfingu.
• Lyfta handleggnum með beinan olnboga fram og upp fyrir höfuð.
• Beygja og rétta olnboga.
 
Eftir að gips er fjarlægt :
Gott er að halda áfram að gera æfingar með höndina, eins og kreppa hnefann og rétta vel úr fingrum. Snúa framhandlegg þannig að lófi vísi upp og niður til skiptis.
Algengt er að fólk finni fyrir lítilsháttar óþægindum og stirðleika í úlnliðnum fyrstu mánuðina eftir brotið.
Mjög mikilvægt er að nota höndina til allra starfa, það flýtir bata.