Tognanir

 

Ökklatognun

Það kallast ökklatognun þegar liðband/-bönd sem styðja við ökklann togna eða slitna að einhverju leyti. Yfirleitt er orsök ökklatognungar snúningsáverki um ökklaliðinn. Við áverkann verður blæðing í vefjum og undir húð og ökklinn bólgnar, þessu fylgir oftast töluverðir verkir.
 
Greining ökklatognunar : Lýsing á óhappi sem og læknisskoðun nægja oftast til að greina ökklatognun, ef grunur er um beinaáverka vaknar er tekin röntgenmynd af ökklaliðnum.
 
Meðferð : Fyrsta meðferð er hvíld, kæling og hálega undir fæti, þannig er bólgu, blæðingu og verkjum haldið í skefjum.
Eftir greiningu læknis eru viðeigandi umbúðir settar á svo sem teygjusokkur, sérstakar þrýstingsumbúðir eða gipsspelka, allt eftir eðli áverkans.
 
Góð ráð : Stundum þarf að nota hækjur fyrst um sinn en best er að stíga í fótinn eins fljótt og hægt er að sársaukamörkum og byrja gera æfingar sem styrkja liðinn.
Æfingar :
1. Stattu á hæl og tám til skiptis
2. Gerðu hnébeygjur þannig að hæll nemi við gólf á meðan.
3. Stattu í tognaða fótinn og haltu jafnvægi í 1- 5 mínútur.
Þessar æfingar þarf að gera oft á dag svo þær skili árangri.
Þegar bólgan er að mestu horfin má auka álag á ökkla með æfingum eins og að hjóla og synda.
Hafðu hálegu undir fæti þegar þú liggur eða situr, þannig dregur þú úr bjúg og bólgumyndun og þar af leiðandi verkjum.
Ekki er ráðlagt að sofa með teygjusokk á fætinum.
Umbúðir eru yfirleitt notaðar í 3 -7 daga eða þar til bólgan hjaðnar.
Verkjastilling : Mestu verkirnir hverfa yfirleitt eftir nokkra daga, á þeim tíma er óhætt að taka væg verkjalyf svo sem paracetamol og íbúfen sem fæst án lyfseðils. Eða þá verkjameðferð sem læknir fyrirskipar.
Batahorfur : Ef farið er að ráðleggingum er tognað liðband yfirleitt 5-6 vikur að gróa. Flestir geta gengið eðlilega eftir tvær vikur. Rétt er að hlífa ökklanum við miklu álagi svo sem íþróttaiðkun á þessu tímabili. Eftir að íþróttaiðkun hefst er ráðlagt að nota ökklaspelku, teygjubindi eða annan stuðning við ökklann í allt að 12 vikur eftir áverka.