Meðferð gipsumbúða

 

 
Gipsumbúðir er notaðar til að hindra hreyfingu beina sem hafa orðið fyrir broti, sina- og/eða liðbandaáverkum eða sýkingum.
 
Gipsumbúðir eru tvenns konar :
Hvítt gips : Er náttúrulegt efni sem bleytt er og síðan mótað. Það þornar vel á 1-3 sólahringum. Það er oftast notað sem fyrsta gips. Það gefur aðeins eftir og hentar því vel með tilliti til bólgu við áverkann. Ýmist er lögð spelka eða heilgips. Allt eftir eðli áverkans og staðsetningu.
 
Plastgips : Er gerviefni sem er líka bleytt og mótað. Það tekur 30 mínútur að harðna. Það gefur lítið eftir. Það er léttara en hvíta gipsið og hentar vel ef um langtímameðferð er að ræða.
 
Umgengni við gips :
• Mikilvægt er að gefa gipsinu tíma til að þorna vel áður en nokkurt álag er lagt á það. Mikilvægt er að lofti vel um gipsið meðan það er að þorna.
• Farðu vel með gipsið og reyndu að halda því þurru og hreinu.
• Gips má ekki blotna. Þegar þú ferð í sturtu eða bað, þá þarf að verja gipsið fyrir bleytu. Til eru plasthólkar í lyfjaverslunum. Einnig má notast við plastpoka sem ná vel yfir gipsið, og plástra vel svo ekki leki vatn innundir.
 
Kláði/óþægindi undir gipsi :
Finniru fyrir kláða undir gipsinu skaltu forðast að klóra með oddhvössum áhöldum undir gipsið vegna hættu á sáramyndun.
Gott er að nota hárblásara til að blása köldum blæstri undir gipsið.
Kantar gipsins geta stundum sært og getur reynst vel að fóðra þá með bómul til að minnka óþægindin.
Nauðsynlegt er að hreinsa tær og fingur reglulega á gipsuðum útlimum.
Ef gips er á einhvern hátt til óþæginda svo sem :
• Særir
• Er of laust eða vítt
• Þrengir að og veldur dofa eða óþægindum, fingur eða tær blána eða eru óeðlilega kaldir/kaldar.
• Gips hefur brotnað
 
Þá skaltu hafa samband við Heilsugæslustöð og láta meta gipsið og fá nýtt gips ef þörfer á.
 
Æfingar í gipsi :
 
• Hafðu hátt undir útlim, varast skal að láta gipsaðan útlim hanga lengi niður því það veldur bólgu og bjúgmyndun sem eykur verki.
• Nauðsynlegt er að hreyfa alla umbúðalausa liði svo sem kreppa fingur og tær til auka styrk og minnka bólgu og vöðvarýrnun.
• Gerðu æfingar til að liðka og styrkja þá liðið sem ekki eru gipsaðir.
 
Gips fjarlægt :
Gips er ýmist klippt af eða sagað með sérstakri sög. Sagarblaðið snýst ekki heldur titrarog á því ekki að valda skaða.
 
Almennar upplýsingar :
Þroti sækir að áverkanum eftir að gipsið hefur verið tekið af. Gott er að nota teygjusokk á daginn, fyrst eftir að gips hefur verið fjarlægt og gott er að gera æfingar áfram reglubundið.
Það getur verið aumt að hreyfa liðamót sem hafa verið í gipsi í langan tíma, eftir að gips hefur verið fjarlægt. Mikilvægt að fara rólega af stað.
Þú átt að fá upplýsingar um hversu mikið álag má leggja á útliminn og einnig um æfingar sem á að gera eftir að gips er fjarlægt.
Hárvöxtur eykst undir gipsinu, en lagast á skömmum tíma eftir að gipsið hefur verið fjarlægt.