Frábær árangur af teymisvinnu heilbrigðisstarfsfólks hjá heilsugæslu HSU á Selfossi

Herdís Gunnardóttir, forstjóri HSU

Föstudagspistill forstjóra

 

5. apríl 2019

 

Í byrjun febrúar kynntum við á HSU nýjung í þjónustu heilsugæslunnar á Selfossi.  Þá hófum við formlega teymisvinnu heilbrigðisstarfsfólks á heilsgæslustöðinni í þeim tilgangi að bæta þjónustuna við íbúa. Það hefur verið vandi víða í heilsugæslunni að biðtími hefur verið of langur eftir þjónustu. Flestir þekkja vel þá upplifun að vera í kapphlaupi snemma á morgnanna til að ná tíma hjá lækni á heilsugæsunni til að fá lausn á sínum málum eða veikindum. Mörg af þeim erindum sem fólk sækir með til heilsugæslunnar mál leysa með öðrum leiðum en að panta tíma hjá lækni.

 

Við höfum síðast liðið ár undirbúið leiðir til að bæta þjónustuna með sem minnstum tilkostnaði.  Tillögur um nýja útfærslu á þjónustunni á heilsugæslunni á Selfossi hefur verið í undirbúningi hjá hjúkrunarstjóra og yfirlækni með aðkomu framkvæmdastjóra hjúkrunar og framkvæmdastjóra lækninga á HSU.  Til að hægt væri að hefja teymisvinnuna tók ég ákvörðun, innan ramma okkar fjárheimilda, að bæta við tveimur stöðugildum hjúkrunarfræðinga á heilsugæslustöðinni svo hægt yrði að koma starfseminni á fót.  Þann 1. febrúar s.l. var svo teymisvinnan formlega kynnt fyrir íbúum. Prófanir á verkefninu fór hin vegar af stað um miðjan janúar á þessu ári.

 

Teymisvinna í heilsugæslu er ekki ný af nálinni og hefur verið reynd í ýmsum útfærslum á Íslandi og er víða þekkt erlendis sem skipulagsform sem hefur fest sig í sessi.  Eðli teymisvinnunnar er fólgið í því að þar er sjúklingurinn eða einstaklingurinn sem þarf þjónustu í öndvegi. Heilbrigðisstarfsfólk ástundar svo samvinnu til að geta veitt viðkomandi sem besta og öruggasta heilbrigðisþjónustu. Þannig hugarfar einkennir okkar góða samstarf innan HSU. Markmið teymisvinnunnar er því að veita rétta þjónustu, á réttum stað af réttum aðila innan ákveðinna tímamarka.  Við settum okkur nánar tiltekið það markmið í upphafi að erindi þeirra sem leita til heilsugæslunnar fái skjóta og örugga afgreiðslu, allir fái samtal við fagaðila samdægurs eða í síðasta lagi næsta dag og að biðtími myndi styttast eftir viðtalstíma.

 

Aðferðin í þessu þverfaglega samstarfi byggir á því að þegar hringt er inn á heilsugæsluna og óskað eftir tíma hjá lækni þá hringir hjúkrunarfræðingur til baka í viðkomandi og fer yfir erindið. Sum erindi má leysa  í gegnum síma eða hjá hjúkrunarfræðingi á heilsugæslustöðinni.  Önnur erindi leysa hjúkrunarfræðingar og læknar saman, eða sumu er vísað til afgreiðslu hjá læknariturum. Dæmi um erindi sem ekki þurfa endilega viðtalstíma hjá lækni eru afgreiðsla lyfjaendurnýjanna, beiðnir um rannsóknir eða sumar tegundir af vottorðum. Þeir sem þurfa að hitta lækni fá tíma eftir að eðli vandamálsins sem er forgangsraðað eftir alvarleika. Til að nýta tímann sem best meta hjúkrunarfræðingar hvort einstaklingurinn þarf 10, 20 eða 30 mínútna viðtalstíma hjá heimilislækni.

 

Ég hef beðið spennt eftir því að geta tekið úr fyrstu tölur um hvort markmiðin okkar hafi náðst með teymisvinnunni. Ljóst er að þjónusta heilsugsæslunnar á Selfossi hefur batnað til mikilla muna nú síðustu 2 mánuði og mun fleiri komast að og fá þjónustu en áður var.  Hið ánægjulega er að árangurinn af teymisvinnunni hefur ekki látið á sér standa og hefur farið fram úr okkar björtustu vonum.  Eftirfarandi staðreyndir gefa okkur vísbendingar um árangurinn sem hefur náðst á heilsugæslunni á Selfossi eftir að teymisvinnan hófst:

Samskipti heilbrigðisstarfsmanna hafa aukist um 20%.

  • Um 2.000-2.500 fleiri einstaklingar fá nú afgreiðslu og þjónustu í hverjum mánuði. Munar þar mestu um símtöl hjúkrunarfræðinga.
  • Um 60% erinda þeirra sem hringja á morgnanna og biðja um tíma hjá lækni má leysa með skjótari hætti með samstarfi heilsugæslulækna, hjúkrunarfræðinga og læknaritara.

Biðtími eftir viðtalstíma hjá lækni hefur styðst um 15-20%.

  • Fleiri komast nú að í viðtalstíma hjá heimilislækni innan 2 daga frá því hringt er á heilsugæslustöðina.
  • Nú komast um 30% að í hefðbundinn viðtalstíma hjá heimilislækni innan 2 daga en um 55% ef samdægurstímar hjá lækni eru taldir með.

 

Við erum þó enn að aðlaga þjónustuna og betrumbæta skref fyrir skref. Við getum verið stolt af árangri okkar fólks á Selfossi. Vonir standa til að við getum í nokkrum skrefum innleitt sams konar þjónustu á fleiri heilsugæslustöðvum á Suðurlandi.  Þess ber þó að geta að víða er samstarf vel skipulagt milli heimilslækna og hjúkunarfræðinga á starfstöðvum HSU.  Við erum þó virkilega á réttri leið með að gera okkar besta í gera góða þjónustu enn betri og aðgengilegri fyrir íbúa og þjónustuþega í heilbrigðisumdæmi Suðurlands.

 

Góða helgi öll sömul.

Herdís Gunnardóttir, forstjóri HSU.