Frá sóttvarnarlækni Suðurumdæmis

Staðfest eru þrjú ný tilfelli inflúensu A (H1N1) hérlendis og fjöldi tilfella því kominn í sjö. Um er að ræða ungt par sem kom heim frá Ástralíu og stúlku um tvítugt sem kom frá Bandaríkjunum. Öll veiktust eftir heimkomuna en ekki alvarlega. Jákvæð niðurstaða úr sýnum lá fyrir í gær. Önnur hugsanleg tilfelli eru í skoðun. • Tilfellin eru öll með búsetu á höfuðborgarsvæðinu og Lúðvík Ólafsson sóttvarnalæknir höfuðborgarsvæðisins hefur yfirumsjón með aðgerðum í samvinnu sóttvarnalækni.
 • Þeir sem hugsanlega urðu fyrir smiti frá þessum tilfellum hafa fengið upplýsingar um að leita til heilsugæslunnar ef þá fá einkenni öndunarfærasýkingar.
 • Sóttvarnalæknir hvetur lækna til að taka sýni hjá sjúklingum með inflúensulík einkenni sem eru nýkomnir frá löndum þar sem inflúensan er í mestri útbreiðslu.
 • En ekki er síður mikilvægt að taka sýni frá einstaklingum með einkenni inflúensu og hafa smitast á Íslandi án tengsla við útlönd. Sjá sýnatökuleiðbeiningar á http://www.influensa.is/
 • Fjöldi tilfella fer vaxandi í heiminum. Í Evrópu hefur faraldurinn náð mestri útbreiðslu í Bretlandi og gert er ráð fyrir mikilli fjölgun tilfella þar á næstunni.

Vegna mikillar umræðu í þjóðfélaginu um bólefniskaup og bólusetningar gegn inflúensu A(H1N1) var send út eftirfarandi fréttatilkynning í morgunn: 1. Ísland hefur tryggt sér kauprétt á allt að 300.000 skömmtum af bóluefni gegn inflúensu A(H1N1). Líklega mun þurfa að bólusetja hvern einstakling tvisvar til að ná góðri vernd með bólusetningu og mun bóluefni því duga fyrir að minnsta kosti helming þjóðarinnar. Sóttvarnalæknir telur þessa ráðstöfun skynsamlega.
 2. Bóluefnið er hvergi til á almennum markaði í veröldinni, enn sem komið er.
 3. Þar sem um er að ræða nýtt bóluefni verður það óhjákvæmilega af skornum skammti í upphafi og því nauðsynlegt, til að byrja með, að greina og bólusetja fólk í helstu áhættuhópum. Í þeim efnum verður stuðst við álit Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.
 4. Afhending bóluefnisins er háð því hversu vel tekst til með framleiðsluna. Vonast er til að fyrstu skammtar bóluefnisins berist í september eða október 2009 og að þeir hafi allir borist til landsins í árslok.
 5. Búast má við að hluti þjóðarinnar hafi þegar smitast af veirunni þegar bóluefnið kemur hingað til lands. Ekki er þörf á að bólusetja þá sem þegar hafa smitast því þeir fá góða vörn af sýkingunni.
 6. Bólusetningu gegn inflúensunni er ætlað að koma í veg fyrir sýkingu. Til eru í landinu inflúensulyf (Tamiflu og Relenza) sem ætluð eru til meðferðar sýktra einstaklinga með alvarleg einkenni.

Sóttvarnalæknir fylgist náið með upplýsingum um sjúkdómseinkenni og áhættuþætti frá löndum þar sem veiran hefur þegar náð útbreiðslu. Ákveðið verður hvernig staðið verður að bólusetningu hérlendis þegar fyrir liggur hvenær bóluefnið berst til landsins og í ljósi upplýsinga sem þá liggja fyrir, víðs vegar að úr heiminum, um þá samfélagshópa sem eru í mestri hættu.

Frá sóttvarnarlækni Suðurumdæmis

Fréttir dagsins: • Fjórða tilfelli inflúensu greindist hér á landi síðasta fimmtudag. Um er að ræða konu sem hefur ekki verið erlendis en hafði umgengist tilfelli 2 og 3 sem áður hafa verið tilkynnt. Það er því ljóst að inflúensan er farin að smitast innanlands. Konan er með væg einkenni og fór ekki á lyf.
 • Þar sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lýsti yfir stigi 6 eða heimsfaraldri í gær og þar með fært sig upp á neyðarstig, gildir eðli máls samkvæmt það sama hérlendis. Þrátt fyrir það hafa sóttvarnalæknir og ríkislögreglustjóri tekið um það ákvörðun að haldið verði áfram að vinna samkvæmt hættustigi viðbragðsáætlunar hérlendis að sinni í ljósi þess að veikin er yfirleitt væg, bæði erlendis og hérlendis. Er þetta einnig í samræmi við skilning WHO.
 • Yfirlýsing WHO breytir því ekki viðbúnaðarstigi hérlendis.

Óskar Reykdalsson

Frá sóttvarnarlækni Suðurumdæmis

Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni hefur nú lýst yfir heimsfaraldri inflúensu sbr. hjálagt skjal.

Yfirlýsing stofnunarinnar er mikilvæg fyrir bóluefnaframleiðendur sem geta nú einbeitt sér að framleiðslu þeirra.

Stofnunin leggur áherslu á að eins og sakir standa sé ekki tilefni til að loka landamærum eða að hefta alþjóðlega umferð og viðskipti.

Þess í stað skulu þjóðir heims einbeita sér að því að draga úr áhrifum faraldursins með viðeigandi sóttvarnaráðstöfunum.

Sóttvarnalæknir mun funda með almannavarnadeild ríkislögreglustjóra í fyrramálið, föstudag, þar sem lagt verður mat á yfirlýsingu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Ekki er búist við því að hún hafi áhrif á þá vinnu við viðbragðsáætlun okkar sem fylgt er á íslandi eins og málum er háttað jafnvel þótt farið verði á neyðarstig hér á landi.

Read More

Frá sóttvarnarlækni Suðurumdæmis

Fréttir dagsins:

 • Þriðja tilfelli hinnar nýju inflúensu A (H1N1) hefur nú greinst hér á landi. Um er að ræða eiginkonu mannsins sem greindist þ. 8.6 en þau komu nýlega frá Bandaríkjunum.
 • Búast má við að inflúensan breiðist út hér á landi á næstu vikum og mánuðum en rétt er að árétta að hún líkist árlegri inflúensu og því ekki ástæða til að óttast alvarlegri afleiðingar en sjást við árlega inflúensu.
 • Ekki er ástæða til að breyta um viðbúnaðarstig hér á landi.
 • Mikilvægt er að fylgjast vel með útbreiðslu inflúensunnar hér á landi því öll vitneskja um sjúkdóminn er nauðsynleg þegar metið er til hvaða viðbragða skuli grípa í framtíðinni.
 • Læknar eru áfram hvattir til að senda sýni til greiningar frá sjúklingum sem grunaðir eru um inflúensu.

Read More

Frá sóttvarnarlækni Suðurumdæmis

Fréttir dagsins:

Nýtt tilfelli inflúensu A greindist þ 8.6.2009 á höfuðborgarsvæðinu. Um er að ræða sextugan karlmanna sem kom frá Bandaríkjunum þ. 3.6 og veiktist rúmum sólarhring síðar. Hann var skoðaður um sólarhring síðar og var þá með talsverð einkenni en ekki alvarlega veikur. Tekið sýni og hann settur á Tamiflu. Hefur farnast vel í framhaldi af því. • Ekki er talið að viðkomandi hafi smitað aðra á leið sinni til Íslands.
 • Haft verður samband við einstaklinga sem verið hafa í nánu samneyti við ofangreint tilfelli og þau meðhöndluð samkvæmt fyrri leiðbeiningum sóttvarnalæknis. Þau eru öll á höfuðborgarsvæðinu.
 • Einstaklingar með inflúensulík einkenni sem hafa verið í samneyti við staðfest tilfelli eiga rétt á að fá veirulyf úr neyðarbirgðum ef læknir metur ástæðu til meðferðar.
 • Fjöldi erlendra tilfella fer vaxandi en inflúensan virðist ekki alvarleg enn sem komið er a.m.k.