Frá sóttvarnalækni – inflúensufréttir

Klínískum inflúensugreiningum sem berast til sóttvarnalæknis er enn að fjölga og er líklegt að tilfellum haldi áfram að fjölga á næstunni  (sjá mynd hér til hliðar).  Útbreiðsla inflúensunnar nú er mjög svipuð og í fyrravetur.

Bæði börn og fullorðnir leita til læknis með inflúensulík einkenni, en hægt er að sjá nánari upplýsingar um aldursskiptingu hér.

Samkvæmt upplýsingum frá Veirufræðideild Landspítala er töluvert um inflúensugreiningar, sjá influensa.is  „Fjöldi með staðfesta inflúensu“. Inflúensan hefur verið staðfest í öllum aldurshópum og  í flestum landshlutum. 

Staðfest inflúensa hefur öll verið af inflúensu A (H3) stofni og enn sem komið er hefur enginn greinst með svínainflúensu (inflúensu A (H1N1)) eða inflúensu B.

Þetta er í samræmi við útbreiðslu inflúensunnar í Evrópu þar sem inflúensa A (H3) er ráðandi, sjá www.ecdc.europa.eu.

Þó nokkuð hefur greinst af RS veiru og metapneumóveirum í börnum sl. vikur, flest börnin eru 1 árs eða yngri (2 vikna – 7 ára). Einnig hafa stök tilfelli af adenóveirum og enteróveirum verið staðfest.