Frá nýjum forstjóra HSU

Kæra samstarfsfólk

Í dag þann 1. október 2019, tek ég við embætti forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.  Ég er afar stolt af því að vera komin í ykkar öfluga hóp og hlakka til að starfa með ykkur.

Frá  sameiningu heilbrigðisumdæmisins á Suðurlandi þann 1. október 2014  hefur verið unnið gott starf innan HSU.  Er það stefna mín að halda áfram á sömu braut og vinna með ykkur að enn frekari uppbyggingu öflugrar stofnunar.

HSU er í örum vexti vegna aukinna umsvifa, enda er Suðurland eitt helsta ferðamannasvæði landsins og fjölgun íbúa á svæðinu á síðustu misserum kallar einnig á aukna starfsemi innan stofnunarinnar. Þjónustusvæðið er víðfeðmt sem eitt og sér er gríðarleg áskorun og því er mikilvægt að við vinnum öll saman sem ein heild.

Á dögunum kynnti heilbrigðisráðherra nýja heilbrigðisstefnu sem nær fram til ársins 2030. Ég fagna því að samþykkt hefur verið heilbrigðisstefna þar sem hlutverk stofnana eru skýr með áherslu á að tryggja öryggi og aðgengi að lögmætri heilbrigðisþjónustu. Verkefnin sem bíða okkar eru því fjölmörg og tækifærin margvísleg, sem við þurfum öll að nýta starfseminni til framdráttar.

Eitt af mínum fyrstu verkum í nýju starfi er að heimsækja allar starfsstöðvar innan HSU og er ég full tilhlökkunar að fá að kynnast starfseminni og ykkur nánar.

 

Með góðri kveðju,

Díana Óskarsdóttir