Föstudagspistill forstjóra

Herdis GunnarsdottirFrá forstjóri HSU:

„Ég hef átt fundi með fulltrúum Velferðarráðuneytis og farið yfir fjárlög og rekstrarstöðu nýrra Heilbrigðisstofunnar Suðurlands og mun í næstu viku eiga í áframhaldandi samstarfi við ráðuneytið um lausn mála er snúa að sameiningu og rekstri á stofnuninni. Í morgun átti ég, ásamt forstjórum annarra heilbrigðisstofnanna af landsbyggðinni, fund með fjárlaganefnd Alþingis og alþingismönnum og áttum við afar góðan fund þar sem rædd voru málefni stofnanna sem nú eru að sameinast í þremur heilbrigðisumdæmum, þar á meðal á Suðuralandi og hvaða tækifæri og áskoranir blasa nú við í þjónustu við sjúklinga og rekstri stofnanna. Í framhaldi af þeim fundi verður unnið markvisst að halda til haga þeim kostnaði sem hlýst að sameiningunni.

 

„Ég tel það skildu mína og hlutverk að upplýsa íbúa Suðurlands um stöðu mála hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og hvaða breytingar og verkefni eru nú eru nú í gangi hjá stofnuninni í tengslum við sameiningarferlið og þróun þjónustunnar“.

 

 

Tæki, búnaður og tölvukerfi

Til að stofnunin geti sinnt sínu lögbundna hlutverki þarf að endurnýja þau rannsóknartæki sem hafa verið biluð á starfstöðvum stofnunarinnar undanfarin misseri. Í samvinnu við Velferðarráðuneytið er verið er að skoða möguleika á að nýta fé sem er eyrnamerkt stofnuninni til að eiga upp í kostnað við að fjárfesta annars vegar í nýju röntgentæki á Selfossi og hins vegar í nýju CT tæki í Vestmannaeyjum. Bæði á Selfossi og eins í Vestmannaeyjum hefur verið söfnun í gangi í samfélaginu fyrir nýjum tækjum en einnig mun leitað allra leiða við að losa fé sem stofnunin hefur á sínum fjárlagalið til að leysa úr þessar brýnu þörf. Það mun stórbæta þjónustuna og auka gæði og öryggi og minnka annan kostnað t.d. samhliða sjúkraflutningum.

 

Forstjóri hefur einnig átt fundi með verkefnastjórum um upplýsingatækni hjá Embætti Landlæknis og staðfesti að fljótlega verður hafist handa við að sameina þrjá gagnagrunna Sögukerfisins í umdæminu í einn sameiginlegan gagnagrunn fyrir sjúkraskrána á stofnuninni. Það mun stórbæta aðgengi að heilsufarsupplýsingum sjúklinga og tryggja samfellu í þjónustu við sjúklinga. Einnig blasa við ný tækifæri fyrir þjónustuþega Heilbrigðisstofnunar Suðurlands þegar aðgangur opnast að heilsuvefnum Veru sem gerir almenningi kleift að sjá gögn úr eigin sjúkraskrá, s.s. bólusetningar, óútleysta lyfseðla og lyfseðla sem leystir hafa verið út síðustu þrjú ár ásamt skráðum ofnæmisupplýsingum. Íbúar geta þá átt í öruggum samskiptum við heilbrigðisstarfsmenn í gegnum Veru.  Í Veru mun verða hægt að bóka tíma á heilsugæslu og einstaklingur getur óskað eftir endurnýjum á ákveðnum lyfjum í gegnum Veru. Vera er aðgengileg með rafrænum skilríkjum 

 

Framkvæmdastjórn og starfsmannamál

Vegna sameiningar stofnanna verður ekki hjá því komist að leggja niður starf framkvæmdastjóra hjúkrunar og lækninga hjá fyrrverandi stofnunum og voru störf framkvæmdastjóra hjúkrunar og lækninga hinnar nýju sameinuðu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands auglýst nú um síðustu helgi laus til umsóknar. Engum starfsmanni og þar með talið stjórnendum hefur verið sagt upp störfum en ljóst er að breytingar munu verða á störfum og hlutverki einhverra starfsmanna. Verið er að vinna í nýju skipuriti fyrir stofnunina og fyrstu drög að skipuriti munu liggja fyrir í næstu viku.  Kynnt verður nýtt skipurit fyrir starfsfólki í desember.  Jafnframt styttist í að nýtt logo verði valið fyrir Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

 

Eins og áður hefur komið fram á opinberum vettvangi þá hefur sólarhringsvakt og bráðavakt skurðlæknis, svæfingalæknis og skurðhjúkrunarfræðings ekki verðið starfrækt í Vestmanneyjum í rúmt ár vegna fjárskorts. Skurðlæknir og skurðhjúkrunarfræðingur hafa starfað við stofnunina í dagvinnu og sinnt speglunum og minni aðgerðum sem ekki krefjast svæfinga. Skurðlæknir í Vestmannaeyjum hefur verið í 100% stöðugildi en hann hefur nú óskað eftir að fara niður í 25% starfshlutfall og mun því á næstu mánuðum vera við störf fjórðu hverja viku.  Hefur verið ákveðið að verða við þessari ósk án þess að það feli í sér að ákvörðun hafi verið tekin um að minnka stöðugildi skurðlæknis sem slíkt.

Starfsmannamál og mönnunarþörf á stofnuninni í heild sinni er í endurskoðun og mun taka hliðsjón af þeirri þjónustustýringu sem ný framkvæmdastjórn mun leggja áherslu fyrir nýja stofnun.

 

Hvað verður um þjónustuna?

Nú fram til áramóta verður aðaláhersla lögð á að ljúka þeim verkefnum sem snúa að sameiningu á rekstri og stjórnskipulagi stofnunarinnar. Á nýju ári mun skýrast hvaða þjónusta verður veitt á hvaða starfstöð og mun ekkert breytast í þeim efnum nú fyrst um sinn. Markmiðið er að efla þjónustna og auka samhæfingu og samfellu í þjónustu til lengri tíma. Á nýrri stofnun munu skapast fjölmörg tækifæri við að efla þjónustu fyrir stærstu sjúklingahópana á Suðurlandi. Sú nýjung verður í þjónustunni á Selfossi að opnuð verður í byrjun desember göngudeild á Selfossi með áherslu á þjónustu og meðferð fyrir nýrna- og krabbameinssjúklinga. Áfram verður lögð áhersla á að sinna grunnheilbrigðisþjónustu ásamt sérhæfðri þjónustu eins og viðeigandi er á hverjum stað. Meðal þeirra möguleika sem verið er að skoða er hvort hægt sé fá aðra skurðlækna og með önnur sérsvið, s.s. kvensjúkdómalækningar, geðlækningar, sérhæfðar lyflækningar og barnalækningar til að sinna reglulegri þjónustu á starfstöðvum stofnunarinnar, t.d. í Vestmannaeyjum. Áætlanir um slíka þjónustu verða kynntar á fyrri hluta árs 2015. Forstjóri leggur áherslu á að koma öllum upplýsingum um þjónustu jafnóðum til íbúa á öllu svæðinu og óskar eftir öflugu samstarfi við alla hagsmunaaðila.