Föstudagspistill forstjóra

Herdis GunnarsdottirKæra samtarfsfólk.

 

 

Nú hefur rekstrar- og starfsemisáætlun HSU fyrir árið 2016 verið samþykkt í Velferðarráðuneytinu. Við munum á næstu vikum kynna betur áherslur í starfinu fyrir þetta ár. Forstjóri og framkvæmdastjóri fjármála munu á næstu vikum funda með stjórnendum deilda og starfstöðva og fara yfir rekstur og mönnun hverrar einingar á HSU.

 

Enn liggur ekki fyrir hver rekstrarafkoma ársins 2015 verður hjá HSU en ljóst er að framundan er áfram áskorun í rekstirnum. Vegna sameiningarferlis og uppbyggingar á skipulagi, rekstri og þjónustu hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands á árinu 2015 var fjölmörgum greiningar- og framkvæmdarverkefnum ýtt úr vör. Við getum verið ánægð með fjölda þeirra verkefna sem okkur tókst að ljúka á síðasta ári.

 

Stærstu verkefni ársins 2016 munu snúa að stefnumótun á sviði rekstrar, þjónustu, ferla og mannauðs. Unnið verður að sérstökum viðfangsefnum á árinu 2016 á HSU, samhliða öllum þeim daglegu verkefnum sem teljast til lögbundins hlutverks stofnunarinnar. Stofnunin hefur hlotið viðbótarfjárveitingu á fjárlögum ársins 2016 fyrir ýmsum viðbótarverkefnum. Hér eru eftirfarandi áherslur verða í starfsemi HSU á árinu 2016:

  • Rýni, vöktun og endurskipulag í rekstri, ásamt endurnýjun samninga.
  • Greining á þjónustuþörf og uppbyggingu þjónustu í samræmi við þarfir íbúa á sviði almennrar og sérhæfrar heilbrigðisþjónustu.
  • Áframhaldandi innleiðingu á gagnreyndri þekkingu og samræmdum vinnulýsingum í meðferð sjúklingahópa.
  • Uppbygging starfsmannastefnu með áherslu á að hlúa að þekkingu og hæfni starfsmanna.

 

Ég hlakka til að takast á við nýtt ár með traustum og öflugum hópi starfsmanna. Saman munum við leggjast á árarnar að ná sem mestum árangri fyrir það fjármagn sem við höfum til ráðstöfunar.

 

Góða helgi,

 

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.