Föstudagspistill forstjóra

Herdis-GunnarsdottirNú er liðið ár frá sameiningu þriggja heilbrigðisstofnanna á Suðurlandi þegar Heilbrigðisstofnun Suð-Austurlands (HSSa), Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSu) og Heilbrigðisstofnunin í Vestmannaeyjum (HSVe) sameinuðustu í nýja Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) sem var stofnuð 1. október 2014.

 

Á þessum tímamótum er holt að horfa um öxl og líta yfir liðið ár. Margt hefur gengið afar vel í sameiningarferlinu og okkur hefur í sameiningu tekist að ljúka mörgum verkefnum. Það er þó ýmislegt enn eftir er tengist sameiningarferlinu eins og að ljúka innleiðingu Vinnustundar og Sögukerfisins í einn nýjan gagnagrunn fyrir heilbrigðisumdæmi Suðurlands. Eins þurfum við að ljúka endurskoðun á ýmsum þáttum rekstrarins, sem reyndar er stöðugt nauðsynlegt að rýna. Framundan hjá okkur eru ýmsar nýjungar, s.s. opnun á heilsuvefnum Veru þar sem íbúar Suðurlands geta rafrænt bókað tíma á heilsugæslu, óskað eftir lyfjaendurnýjun og haft yfirsýn yfir eigin lyfseðla og bólusetningar. Nýtt mannauðs- og ráðningarkerfi verður einnig tekið í notkun fljótlega. Þessar nýjungar verða vel kynntar á næstu vikum. Starfsánægjukönnun sem frestaðist í vor vegna verkfalla verður framkvæmd nú á haustmánuðum. Jafnframt viljum við kanna okkar eigin frammistöðu gagnvart sjúklingum og setja í gang til að byrja með þjónustukönnun á heilsugæslu HSU.

 

Til að enda þetta á persónulegu nótunum er mér efst í huga þakklæti til ykkar allra fyrir frábært samstarf frá því ég kom til starfa. Margt hefur verið mikil áskorun og nauðsynlegt er að skoða hvað má betur fara. Ég hef lagt áherslu á að reyna að upplýsa um það sem er í gangi á hverjum tíma en hvet einnig til þess að starfsmenn upplýsi sína yfirmenn um öll þau málefni sem upp koma hverju sinni. Þannig virkar samstarf best. Mér finnst það sérstök forréttindi að fá að starfa með þeim öfluga hópi sem vinnur á HSU. Ég hef áður lýst því yfir að mannauðurinn er ein dýrmætasta eign fyrirtækja og stofnanna þar sem færni hvers og eins fær að njóta sín. Það er von mín að okkur takist að byggja upp enn öflugri stofnun á komandi misserum.

 

Góða helgi,

 

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri.