Föstudagspistill forstjóra

HerdísGunnarsd.Nú hefur verkfall BHM staðið í nær 10 vikur og verkfall Fíh staðið í 2 vikur. Verkfallið hefur þegar haft veruleg áhrif á daglega starfsemi stofnunarinnar. Starfsemi hefur dregist saman um ríflega helming á rannsóknarstofum og á myndgreiningu og um tveir þriðju sjúkrarúma hafa verið lokuð frá því í lok maí. Það er því ljóst að umtalsverð röskun hefur orðið á starfsemi HSU. Nú er útlit fyrir að lög verði sett af Alþingi á verkfall BHM og Fíh þrátt fyrir að vonir hafi staðið til að samningsaðilar myndu leysa kjaradeilur heilbrigðisstétta sem fyrst og ganga hratt til samninga. Við munum við fylgjast með framvindu mála á Alþingi og tilkynna starfsmönnum um næstu skref. Það er von okkar að í verkfallinu hafi ekki hlotist af skaði fyrir sjúklinga. Ástandið í heilbrigðiskerfinu einkennist nú af gífurlegri óvissu sem veldur mikilli áhættu og er því tímabært að binda enda á verkföll, þó svo það sé með öðrum hætti en búist var til. Starfsfólk HSU hefur lagst sig fram um að gera allt sem hægt er til að koma í veg fyrir hamlandi áhrif verkfallsins. Ljóst er að allir hafa reynt við afar erfiðar aðstæður að gera sitt allra besta til að bregðast við ástandi sjúklinga og veita viðunandi meðferð í tæka tíð, þrátt fyrir verkfallsástand.

 

Ástandið í heilbrigðiskerfinu undanfarnar vikur og mánuði hefur sett svip sinn á starfsemi HSU. Okkur hefur þó tekist að ljúka fjölmörgum verkefnum er tengjast sameiningunni og hefja uppbyggingu á nýrri stofnun. Við getum því vel við unað. Nú þegar sumarleyfi fara í hönd dregur eðlilega úr framkvæmdahraða í verkefnum en við munum hefjast handa síðsumars að virkja alla til þátttöku, kynna breytingar og innleiða nýjungar í starfseminni. Áfram er mikilvægt að gæta aðhalds í rekstri og munum við kynna leiðir að því markmiði. Rekstrastaða HSU er ríflega 1% í halla eftir fyrstu fimm mánuði ársins og þurfum við að sameinast um að snúa því dæmi á réttan veg.

 

Nýtt skipurit hefur tekið gildi og nú er m.a. unnið að endurskipan í ráð og nefndir og kosið verður í nýtt hjúkrunar- og ljósmæraráð og læknaráð fyrir HSU með haustinu. Eins er unnið að endurskoðun á ráðningarferli nýrra starfsmanna og breytingar á verklagi og reglur um ferli nýráðningar verða teknar í notkun í haust. Eins er nú unnið að lokasamantekt á ársskýrslu HSU fyrir árið 2014, en ekki varð af ársfundi HSU nú í vor, m.a. vegna verkfalla.

 

Það er ósk að þið eigið ánægjulega helgi framundan, hvort sem þið standið vaktina eða eruð í fríi.

 

Góða helgi.

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri.