Föstudagspistill forstjóra

HerdísGunnarsd.Nú hefur staðið til í tvígang að safna saman stjórnendum HSU til vinnufundar á HSU og hefja vinnu við stefnumótun og greiningarvinnu vegna þjónustustýringar á HSU. Vegna óblíðrar veðurspár höfum við þurft að fresta þeirri samkomu tvisvar sinnum og stefnum nú á að hittast eftir páska. Það verður því ekki fyrr í apríl sem við munum halda opna starfsmannafundi og fá alla að borðinu við kynningu og útfærslu á stefnumótun varðandi þjónustu og innri mál hjá HSU. Ársfundur HSU verður svo haldinn í maí og auglýstur þegar nær dregur. Þar væntum við að sjá sem flesta starfsmenn.

 

Hins vegar er sem áður í mörg horn að líta og ýmsar breytingar og nýjungar kynntar jafnóðum. Ýmislegt er að gerast í tölvu- og símamálum og munum við kynna nýja ytri heimasíðu HSU innan tíðar. Eins er í undirbúningi að skipta út símanúmerum stofnunarinnar og fá eina nýja seríu af símanúmerum fyrir stofnunina í heild sinni. Við erum með í gangi vinnu við að hefja innleiðingu á nýju innkaupaferli hjá HSU og ákveðið hefur verið að miðlægur lager verður staðsettur á Selfossi. Einnig fer af stað í apríl útboð fyrir hýsingu á tölvukerfum HSU og getum við þá klárað sameiningu á gagnagrunnum sjúkraskrárkerfisins Sögu fyrir allt Suðuland. Einnig stendur til að hefja innleiðingu á sjúklingavefnum VERU fyrir íbúa Suðulands með vorinu og munum við trúlega framkvæma það í áföngum. Við munum leggja áherslu á að kynna það verkefni sérstaklega vel fyrir íbúum.

 

 

Ég óska ykkur góðrar helgar.

 

Herdís Gunnarsdóttir

Forstjóri HSU.