Föstudagspistill forstjóra

Herdís GunnarsdóttirÞað eru spennandi og krefjandi tímar framundan og mikið í húfi að yfirvöld leiðrétti skuldavanda fyrrum stofnanna sem nú tilheyra HSU. Sá vandi hefur enn ekki verði leystur. Við höldum þó áfram og einbeitum okkur að þjónustunni og því að koma skipulagi nýrrar stofnunar í farveg. Nú í upphafi árs eru ýmis verkefni komin í framkvæmd. Um áttatíu verkefni eru nú í vinnslu og mörg þeirra eru unnin í þeim sex verkefnahópum sem ég stofnaði meðal starfsmanna fyrrverandi stofnanna HSU. Þetta eru flest allt verkefni sem tengjast sameiningunni, s.s.rekstri og fjármálum, innkaupamálum, síma- og upplýsingatæknikerfum, myndgreiningu og rannsóknarþjónustu, búnaði og viðhaldi húsnæðis og innleiðing Vinnu stundar. Senn munu liggja fyrir niðurstöður sem kynntar verða fyrir öllum á stofnuninni og þjónustuþegum á Suðurlandi, þegar hóparnir hafa skilað tillögum og verkefnin koma til framkvæmda.

Þjónustustýringarverkefni fyrir allar starfstöðvar HSU fara í gang í febrúar og munu standa fram á vor. Við höfum einnig hug á að skoða nýjungar í þjónustunni og hvernig við getum bætt samvinnu milli heilbrigðisstarfsmanna á stofnuninni og aukið gæði þjónustunnar. Sumt getum við hafist handa við að innleiða strax en annað tekur tíma að skipuleggja. Ánægjulegt er að segja frá því að nú er í undirbúningi að vinna að skipulagi ómskoðunar snemma á meðgöngu og við 20. viku meðgöngu fyrir mæður, m.a. í Vestmannaeyjum. Einnig er unnið að endurskipulagi sjúkraflutninga í heilbrigðisumdæmis Suðurlands.

Ég mun leggja mig fram um að tilkynna jafnóðum þær nýjungar og breytingar sem verða á starfinu hjá okkur. En ég er umfram allt þakklát fyrir allt það faglega og öfluga starf sem nú er unnið á HSU og hef væntingar um enn meiri árangur hjá okkur.

 

Góða helgi.

Herdís Gunnarsdóttir,

forstjóri HSU.