Föstudagspistill forstjóra

18. janúar 2019

 

 

Kæra samstarfsfólk.

Nú í upphafi árs er gagnlegt að fara yfir starfsemistölur síðustu ára til að glöggva okkur á því hversu hratt starfsemin hefur vaxið hjá okkur.  Við starfsmenn HSU höfum fundið hvernig álag hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár með geysilegri aukningu verkefna.  Okkur hefur tekist að ráða við þessar áskoranir í rekstri og þjónustu með samstilltu átaki, góðri mönnun og fólki sem er tilbúið í breytingar til hagsbóta fyrir velferð sjúklinga og íbúa á Suðurlandi.  Það er athyglivert og enn erum við á þeirri vegferð að gera enn betur til að auka aðgengi íbúa að heilbrigðisþjónustunni og tryggja úrlausn mála þeirra sem til okkar leita.

 

Að þessu sinni langar mig sérstaklega að leggja fram tölur síðustu 5 ára um starfsemi og móttöku lækna á heilsugæslu á Selfossi í samspili við komur sjúklinga á slysa- og bráðamóttöku á Selfossi.  Staðreyndirnar sem blasa við okkur eru að komur til lækna hafa aukist um 25%, komur til lækna á samdægursmóttöku hafa aukist um 46% og komur alvarlega veikra sjúklinga á BMT á Selfossi hafa aukist um 60%. Þetta er langt umfram eðlilega raunaukningu í starfsemi.

 

Til að mæta auknu álagi og verkefnum var farið út í tvenns konar breytingar á þjónustu heilsugæslulækna á Selfossi fyrir um 2 árum. Þá var skyndimóttaka heilsugæslulækna á Selfossi færð af gangi bráðamóttökunnar og samdægurstímum til lækna fjölgað og þeir líka færðir að hluta yfir á dagvinnutíma. Að auki var námsstöðum lækna í heimilslæknum fjölgað á Selfossi.  Þetta varð til þess að framboð jókst hægt en bítandi af tímum hjá heilsugæslulæknum á Selfossi.  Á sama tíma hefur íbúafjölgun á Suðurlandi verið 10% og á Selfossi um 15% á síðustu 5 árum. Jafnframt hefur verið bætt í þjónustu bráðamóttöku á Selfossi með aukinni mönnun hjúkrunarfræðinga og lækna.  Þar kemur fjöldi sjúklinga vegna alvarlegra veikinda og slysa, og vel hefur gengið að vísa sjúklingum í önnur úrræði, s.s. á heilsugæslu ef ekki er um bráðan vanda að ræða. Enga að síður hefur ekki enn tekist að stytta biðtíma á heilsugæslunni á Selfossi því aukning íbúa og þjónustu vex samhliða mótvægisaðgerðum við að bæta þjónustu og aðgengi. Við bíðum því spennt eftir því að sjá árangur af aukinni teymisvinnu á heilsugæslunni á Selfossi sem hjúkrunarstjóri og yfirlæknir kynntu nýlega. Prufuinnleiðing á teymisvinnunni lofar góðu í því miði að auka aðgengi sjúklinga að réttri þjónustu hjá réttum aðilum, stytta biðtíma til lækna og leysa sem fyrst úr erindum íbúa og sjúklinga. 

 

Öll verkefni hjá okkur miða að því að samþætta þjónustuna þannig að þarfir sjúklinga séu í öndvegi þannig að þeir fái rétta greiningu, meðferð og eftirfylgni sinna mála.  Markmið breytinga á þjónustu er ávallt að fara vel með fé, minnka sóun og tryggja jafnframt gæði þjónustunnar. Slíkt er áskorun en alls ekki ógerlegt. Afrakstur slíkra verkefna ætti líka ávallt að vera að draga úr álagi á starfsfólk og auka ánægju í starfi. Við okkar blasa ótal tækifæri til umbóta og áhugaverðir tímar eru framundan í þjónustunni hjá okkur. Frumkvæði, elja og samstaða starfsmanna á HSU hefur gert það að verkum að okkur er að takast vel að sinna þeim sem til okkar leita.

 

Ég vil hvetja starfsmenn og íbúa til að kynna sér vel nýjungar í starfseminni sem er hrein viðbót við þá þjónustu sem við erum þegar að veita.

 

 

Góða helgi.

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.

 

Komur til lækna á heilsugæslu og komur á BMT á Selfossi árin 2014-2018