Föstudagspistill forstjóra

28. september 2018

Kæra samstarfsfólk.

 

Rekstarniðurstaða liggur nú fyrir hjá HSU fyrir árið 2017 á óendurskoðuðum ársreikningi upp á um 36 millj. kr. halla. Rekstur HSU er stöðug áskorun í umhverfi sem einkennist af miklum hraða í vexti þjónustunnar, langt umfram áætlaða fjármuni. Nú liggur einnig fyrir hálfs árs uppgjör í rekstri HSU og er hallinn orðinn liðlega 100 millj. kr.

 

HSU glímir við halla vegna hjúkrunarrýma sem er þekkt vandamál hjá flestum hjúkrunarheimilum og er það orðin þekkt stærð að undirfjármögnun í rekstri hjúkrunarrýma nemur um 20%. Það er ljóst að hjúkrunarrými er nánast útilokað að reka, miðað við faglegar lágmarkskröfur, á núverandi fjárveitingum.

 

HSU hefur gert ráðuneyti grein fyrir fordæmalausum vexti í starfsemi heilsugæslusviðs frá 2014 og hefur HSU óskað endurtekið eftir því að tillit sé tekið til þessa við fjárlagagerð. Þessi staða HSU er gjörólík rekstarumhverfi annarra heilbrigðisumdæma. Framleiðsluaukning starfstöðva HSU er á bilinu 5% til 33% milli ára, síðustu 4 ár. Þar er einkum átt við raunaukningu verkefna í grunnheilbrigðisþjónustu og heilsugæslu í umdæmi Suðurlands og í sjúkraflutningum. Mikil aukning slysatíðni fylgir því miður sívaxandi umferð ferðamanna. Vegna þessara verkefna hefur verið nauðsynlegt að bæta í mönnun hjúkrunarfræðinga, lækna og sjúkraflutninganna til að tryggja grunnþjónustu sem okkur er skylt er að veita.  Því er erfitt að eiga ekki fé fyrir aukinni mönnunarþörf, þar sem HSU er eftirsóttur vinnustaður, stöðugildi eru nánast fullmönnuð og augljóst að staða viðfangsefna mun ekki breytast næstu misseri. Hagræðingaraðgerðir eru vissulega stöðugur hluti af umbótastarfi HSU, enda ber okkur að fara vel með almannafé.  Hins vegar er nú svo komið að  gera þarf nauðsynlegar breytingar og skoða hvernig við getum veitt almenna heilbrigðisþjónustu, og framleitt sífellt meira, fyrir hlutfallslega minna fé ár hvert.

 

Við höfum lagt áherslu á að fjárlagagerð fyrir málefnasvið stofnunarinnar þurfi að vera gerð út frá forsendum þeirra staðreynda sem blasa við. Gleðilegt er þó að sjá áherslu á eflingu heilsugæslu í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Enga að síður eru aðstæður á Suðurlandi með þeim hætti, nú síðustu ár, að enginn gat séð fyrir þvílíka aukningu í þjónustu HSU. Enn eykst þjónustan og ekki er séð fyrir endann á því með hvaða hætti það skuli fjármagnað miðað við óbreyttar forsendur í fjárlögum. Í samvinnu við ráðuneyti hefur tekist að laga skuldastöðu stofnunarinnar, en því jafnvægi er nú ógnað. Verið er að leggja mat á áhrif frumvarps til fjárlaga á rekstur HSU á árinu 2019.  Of snemmt er enn að leggja mat á nákvæmar upphæðir. Miðað við óbreytta stöðu í fjárframlögum og starfsemina sem okkur ber lagalega skylda til að reka þá vantar enn upp á tugir milljóna til heilsugæslu annars vegar og hjúkrunarrýma hins vegar til að endar náist saman.

 

Við erum í þeirri stöðu að við getum ekki lokað, dregið saman seglin eða vísað fólki frá.  Eðli heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni er þannig að skyldan bíður okkur að standa vaktina.

 

Góða helgi.

 

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.