Föstudagspistill forstjóra

21. september 2018

Síðustu daga hefur verið endurvakin umræða í fjölmiðlum um rótgróna vinnustaðamenningu og áhrif #metoo á starfshætti, samskipti og menningu í fyrirtækjum og hjá stofnunum. Vinnustaðamenning er mikilvægur hluti af allri starfsemi hjá okkur á HSU og hefur áhrif á árangur og frammistöðu. Að því leyti erum við ekkert ólík öðrum vinnustöðum.  Hver staður innan HSU hefur jafnvel sína eigin vinnustaðamenningu sem mótast af undirliggjandi hugmyndum og skoðunum starfsfólks á hverjum stað.  Mér finnst því mikilvægt í þessum föstudagshugleiðingum mínum að fylgja eftir þessari umræðu og hvernig hún snýr að okkur á HSU.

Heilbrigðisráðherra leggur áherslu á að hjá heilbrigðisstofnunum sé í gildi jafnréttisáætlun og aðgerðaáætlun þar sem tekið er því hvernig skuli koma í veg fyrir einelti, ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni.  Hjá okkur á HSU er í gildi slík áætlun og til hvað aðgerða skuli gripið ef upp koma viðkvæm mál eða kvartanir af þessu tagi.

Það er á ábyrgð okkar stjórnenda að taka slíkum málum alltaf alvarlega og meðhöndla af fagmennsku og sanngirni. Það er líka á ábyrgð okkar stjórnenda að aðbúnaður sé með þeim hætti að öllum geti liðið vel við störf sín.  Fjárskortur er þó enn að hamla því að við getum endurnýjað nauðsynlegan búnað, tæki og annað eins hratt og við hefðum kosið. Aðbúnaður í vinnu er eitt og líðan og framkoma er annað.  Við verðum að vera reiðubúin að taka vel við þeim sem til okkar leita og því finnst mér afar áríðandi að starfsmenn HSU geti treyst því að þeir sér öryggir með að ræða líðan sína í vinnu við stjórnendur. Komi upp vanlíðan í vinnu þarf að ræða slíkt af yfirvegun, nærgætni, með opnum hug og án ásakana og dómhörku og alltaf í trúnaði.

Við erum öll ábyrg fyrir því hvernig menningin á okkar vinnustað þróast.  Framlag okkar sjálfra skiptir máli þegar kemur að félagslegri og andlegri líðan okkar nánasta samstarfsfólks. Síðustu kannanir hjá okkur gefa sterkar vísbendingar um að við séum stolt af starfi okkar á HSU og almenn ánægja er meðal flestra í vinnunni, þó svo að það skorti upp á nægan búnað, bæta megi vinnuaðstöðu víða og við finnum öll fyrir mis miklu álagi í vinnunni.  Þetta eru auðvitað atriði sem stjórnendum ber að vinna með og reyna að bæta og lagfæra. Samskipti okkar sem samstarfmanna og samherja á HSU hljóta þó alltaf að ráðast af því hvað okkur sjálfum hverju og einu þykir tilhlýðilegt og ásættanlegt. Mörkin í samskiptum okkar þurfa að vera skýr. Við hljótum að ganga út frá því að virðingin sem við viljum þiggja verður að vera gefin í sama mæli.  Öllum getur orðið á í daglegum samskiptum og auðvelt á að vera að biðjast afsökunar á slíku.  En þegar kemur að alvarlegum brotum í samskiptum er varða kvartanir um einelti, ofbeldi eða kynferðislega áreitni þá beri að taka slíkum kvörtunum af mikilli alvöru.  Í slíkum málum leggjum við ríka áherslu á að grípa til viðeigandi aðgerða til lausnar á erfiðum málum.  Með þessu vil ég leggja áherslu á að við viljum alltaf takast á við erfið mál, enda er það farsælast og alltaf skylda okkar. Við sem stofnun, leggjum líka áherslu á að vinnustaðarmenningin okkar sé góð og í anda gilda okkar.  Okkur ber að sína hvort örðu virðingu, vera fús til samstarfs og ástunda fagmennsku í hvívetna.

Ég vil óska ykkur góðrar helgar, njótið helgarfrísins og góða vakt til ykkar hinna sem standið í framlínunni um helgina.

 

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.