Föstudagspistill forstjóra

Herdis GunnarsdottirSíðasta sunnudag, 24. nóvember var boðið til samsætis hjá HSU í Vestmanneyjum og þess var minnst að 40 ár eru liðin frá vígslu byggingar Sjúkrahúss Vestmannaeyja. Þar fluttu erindi Eydís Ósk Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar og Hjörtur Kristjánsson, framkvæmdastjóri lækninga og Herdís Gunnarsdóttir forstjóri. Eydís og Hjörtur röktu sögu Sjúkrahúss Vestmannaeyja og Herdís greindi frá framtíðarsýn nýrrar stofnunar.

 

Fram kom hjá Herdísi að rekstur HSU er í jafnvægi á þessu ári en uppsafnaður rekstrahalli og neikvæður höfuðstóll í árslok 2013 var alls um 355 milljónir króna. „Enginn niðurskurður er á fjárlögum fyrir árið 2015 til HSU og hlutur HSU í Vestmannaeyjum er um 21,9% af fjárframlagi til stofnunarinnar í heild sinni,“ sagði Herdís og nefndi að gert er ráð fyrir sérframlagi til minni verkefna sem tengjast sameiningu stofnana í heilbrigðisumdæmunum. Rekstur á HSU það sem af er árinu 2014 er á allflestum stöðum í góðu jafnvægi að undanskildum Vestmannaeyjum. Þar er töluverður uppsafnaður rekstrar- og skuldavandi sem er tilkominn frá síðustu árum. Ógreiddar og útistandandi skuldir við birgja og lánadrottna hjá fyrrverandi Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja nema um 15% af fjárframlagi til HSU í Vestmannaeyjum fyrir árið 2015. Hér er um mjög stóran rekstrarvanda að ræða sem er verkefni sem verður leitað allra mögulegra leiða til að leysa. Fjárlaganefnd Alþingis hefur verið gert viðvart og óskað eftir viðbótar fjárframlagi þar sem snúið er að hefja rekstur á sameiginlegri stofnun með langan skuldahala gagnvart lánadrottnum. Herdís er þó bjartsýn á það takist að leysa þennan vanda þó það muni vissulega taka tíma og ný úrræði. Mikilvægt er að stjórnendur hafi í höndum verkfæri til að skipuleggja þjónustuna og hafa eftirlit með kostnaði í rekstrinum.

 

Um hlutverk og markmið sagði Herdís að hlutverk stofnunarinnar og starfsfólks hennar sé að leggja grunn að skipulagi almennrar heilbrigðisþjónustu og tryggja íbúum jafnan aðgang að henni þannig að þeir eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er tök á að veita. Ef ekki er hægt að vera með rekstur á fullri þjónustu í Vestmannaeyjum þá þarf að tryggja aðgengi íbúa Vestmannaeyja að öruggri heilbrigðisþjónustu. Nefndi hún í því sambandi að á HSU væri tryggð almenn grunnþjónusta s.s. almennar lyflækningar, hjúkrun og heimahjúkrun, slysa- og bráðamóttöku, mæðravernd, ung- og smábarnavernd og heilsugæslu í grunnskólum, forvarnir, heilsuvernd og önnur heilbrigðisþjónusta og stoðdeildarþjónustu og rannsóknir. Fæðingarhjálp og skurðstofuþjónusta verður skipulögð út frá þörfum einstaklinga og því fjármagni sem fæst til að skipuleggja þá þjónustu. Ýmsir möguleikar verða einnig fyrir nýja framkvæmdastjórn HSU að útfæra sérhæfða heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi. Þess má geta að þann 12. desember verður opnunarhátíð á HSU á Selfossi þar sem formlega verður opnuð ný göngudeild sem er mikilvæg nýjung í þjónustu við sjúklinga á Suðurlandi. Drög að nýju skipuriti fyrir HSU er í vinnslu og hefur verið kynnt fyrir stjórnendum og verður birt nú í desember.