Föstudagspistill forstjóra

2. mars 2018

 

 

Kæra samstarfsfólk.

 

 

Sérstakar aðstæður hafa verið í fjármálaumhverfi HSU á síðustu mánuðum.  Þar hafa spilað inn í snúnar aðstæður á vettvangi stjórnmálanna, kosningar og bið við afgreiðslu fjárlaga ársins 2018.  Nýr heilbrigðisráðherra heimsótti HSU í byrjun janúar og áttum við afar góðan fund með Svandís Svavarsdóttur. Ráðherra hefur á skömmum tíma í embætti sett sig hratt inn í flóknar aðstæður á sviði heilbrigðismála.  Við fögnum samstarfi við nýjan ráðherra sem hefur skarpa sýn á verkefnin framundan í heilbrigðismálum og hefur hlustað á rök okkar um þær áskoranir okkar við að mæta aukinni eftirspurn á öllum sviðum þjónustunnar.

 

Uppbygging heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni er forsenda þess að við getum dregið úr kostnaði, tvíverknaði og óþarfa ferðalögum langveikra og aldraðra. Nauðsynlegt er að fjármagna þá heilbrigðisþjónustu sem veitt er á landsbyggðinni. Þarfir langveikra, þarfir aldraðra og þarfir barnafjölskyldna fyrir heilbrigðisþjónustu eru alls staðar eins.  Við viljum stöðugt skoða leiðir til að tryggja aðgengi og leita allra leiða til að allir sem til okkar leita fá úrlausn og skjóta þjónustu. Fjármagnið þarf því að fylgja íbúum og verkefnum í heilbrigðisþjónustu. Reiknilíkön heilbrigðisþjónustunnar á landsbyggðinni hafa því miður ekki tekið tillit til þessa og hafa fjárveitingar ekki vaxið í samræmi við örar breytingar á sviði íbúadreifingar og ferðaþjónustu.

 

Forstjórar heilbrigðisstofnanna á landsbyggðinni voru boðaðir á fund fjárlaganefndar í lok árs 2017 og gerðu þar grein fyrir að í heilbrigðisumdæmin sex á landsbyggðinni vantaði um 1,2 milljarða króna til að halda í horfinu í þjónustunni, bæta við nauðsynlegri viðbót í grunnþjónustu og endurnýja lágmarkstækjabúnað.  Árangurinn var sá að umdæmin fengu öll samtals 400 milljónir króna á fjárlögum ársins 2018 og áður hafði verið bætt við 200 milljónum króna til tækjakaupa.

 

Nú þegar tveir mánuðir eru liðnir af árinu liggur loksins fyrir hver fjárframlög Ríkisins eru til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á árinu 2018.  Resktur HSU á árinu 2018 verður í járnum og fjárframlög ársins gefa þó viðurkenningu á nauðsynlegum viðbótum á því sem við þurftum að grípa til í mönnum slysa- og bráðamóttöku BMT á Selfossi og í sjúkraflutningum í Rangárþingi.

 

Næstu vikur munum við setja fram starfáætlun ársins 2018 og kynna við fyrsta tækifæri, fyrst fyrir samstarfsfólki, og síðan öðrum hagsmunaðilum.  Ég vil því í lok þessa mánaðar boða til starfsmannafunda og kynna og ræða leiðina okkar fram á við.  Það vantar ekki áskoranir til að glíma við hjá okkur. Auðvelt er fyrir okkur öll að gleyma okkur í að kljást við áskoranir og álag.  Með því móti vil ég ekki gera lítið úr því álagi sem hvílir á okkur í framlínu heilbrigðisþjónustunnar en fremur minna mig og okkur á að við höfum líka tækifæri til að breyta og bæta enn frekar þá góðu þjónustu.  Við þurfum að styrkja innviðina okkar og einbeita okkur að því að efla okkur inn á við. Mér finnst sérstaða HSU felast almennt í góðum samskiptum og vilja til samvinnu.  Það er líka ómetanlegt að hjá okkur skuli nánast allar stöður vera fullskipaðar.  Það er ekki sjálfsagt í umhverfi þar sem mikil vöntun er víða á heilbrigðisstarfsfólki.  Ég hlakka til að geta nú skipulagt með ykkur árið framundan.

 

Góða helgi,

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.