Föstudagspistill forstjóra

15. desember 2017

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Kæra samstarfsfólk.

 

Nýtt frumvarp til fjárlaga eru geysileg vonbrigði fyrir HSU og þjónustu við íbúa Suðurlands. Á þessu ári hefur okkur á HSU verið tíðrætt um þá fordæmalausu aukningu sem orðið hefur í þjónustu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands frá sameiningu í árslok 2014.  Nú í áratug hefur stofnunin verið undirfjármögnuð og fjársvelt líkt og aðrar heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni. Þær viðbætur sem settar hafa verið í reksturinn síðustu ár hafa dugað skammt. Sífellt er krafa um meiri afköst fyrir minna fjármagn. Eftirfarandi staðreyndir blasa við úr starfseminni okkar.  Í fjárveitingum til HSU hefur enn ekki verið bætt fyrir þessa aukningu sem öll tilheyrir lögbundinni heilbrigðisgrunnþjónustu á Suðurlandi: 

 

  • Heildarfjöldi samskipta í heilsugæslu á HSU jukust um 7% milli áranna 2015 og 2016.
  • Komur á BMT á Selfossi hafa aukist um 15% milli áranna 2015 og 2016.
  • Sjúkraflutningar í umdæmi HSU jukust um 11% milli áranna 2015 og 2016.
  • Biðtími eftir sjúkraflugi til Vestmannaeyja er ekki ásættanlegur.
  • Hagrætt var um 120 milljónir á HSU með uppsögnum á árinu 2016.
  • Lokað var 40 hjúkrunarrýmum á Suðurlandi nú á árinu.
  • Íbúafjöldi á vesturhluta Suðurlands hefur aukist um 9% frá 2014.

 

Ég fagna heilshugar yfirlýsingum nýs heilbrigðisráðherra um þá stefnu að standa skuli vörð um opinbera heilbrigðisþjónustu.  Ég fagna líka heilshugar stórhuga innspýtingu í heilbrigðiskerfið. Það er ljóst að aðstæður nú eru óvenjulegar í stjórnmálunum og mjög lítill tími gafst í að vinna nýtt frumvarp. Í frumvarpinu hefur landsbyggðin þó algjörlega gleymst. Í núverandi frumvarpi til fjárlaga er bætt við tuttugu og eitt þúsund milljónum í heilbrigðiskerfið en af þeirri upphæð fá heilbrigðisumdæmin á landsbyggðinni lítið sem ekkert.  Fyrir einn milljarð af þessum 21 milljarði hefði verið hægt að endurreisa heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni allri og tryggja innviði og kaupa nauðsynlegan lágmarksbúnað sem víða er úr sér genginn og ónýtur á heilbrigðisstofnunum. 

 

Í heilbrigðisráðuneytinu liggur fyrir vel rökstutt erindi frá HSU um að á árinu 2018 vanti 300 milljónir króna til reksturs heilsugæslu, bráðamóttöku og sjúkraflutninga, ásamt fármagni til endurnýjunar tækja.  Erindi okkar til stuðnings kom út í dag hlutaúttekt Embættis landlæknis á starfsemi heilsugæslusviðs HSU þar sem þeim ábendingum er beint til Velferðarráðuneytisins að taka ákvörðun um að hafa bráðamóttöku á Selfossi. „Embætti landlæknis telur mikilvægt að heilbrigðisyfivöld taki ákvörðun um að bráðamóttaka sé fyrir hendi á Selfossi og taki tillit til þess í fjárveitingum“.

 

Samkvæmt frumvarpinu nú fær HSU 60 milljón kr. aukningu frá frumvarpinu sem lagt var fram í september af síðustu ríkisstjórn.  Vonbrigði okkar eru mikil.  Þessar 60 milljónir duga á engan hátt til að halda í horfinu né til þess að gera raunhæfar rekstaráætlanir.  Til að setja þessar tölur í samhengi þá eru þessi upphæð 0,003% af heildarinnspýtingunni í heilbrigðisþjónustuna. Á  svæðinu búa um 8% landsmanna sem þekur um 30% af landinu okkar. Við getum ekki leynt vonbrigðum okkar. Á HSU starfar framúrskarandi hópur fagmanna og stjórnenda sem eru reiðubúin að leita allra leiða til uppbyggingar. Við munum áfram starfa á þeirri braut. Við neitum að trúa því að niðurskurður blasi við í grunnheilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Við bendum á að þetta hljóti að vera mistök sem verða leiðrétt í meðförum þingsins.

 

Við hlökkum til að taka á móti nýjum heilbrigðisráðherra sem hefur lýst yfir áhuga sínum á að koma í heimsókn til okkar á HSU.

 

 

Góðar stundir og njótið aðventunnar, Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.