Föstudagspistill forstjóra

24. nóvember 2017.

 

Í dag sat ég málþing Landsambands heilbrigðisstofnanna með forstjórum og framkvæmdastjórum heilbrigðisstofnanna.  Þar fjölluðum við um þjónustuviðmið í heilbrigðisþjónustunni, um hlutverk og verkaskiptingu í opinberri heilbrigðisþjónustu á Íslandi.  Vinna við skilgreiningu á þessum þáttum er þegar hafin meðal forstjóra heilbrigðisstofnanna undir forystu heilbrigðisráðuneytisins.  Mikill samhljómur er í hópnum um hvert skuli stefna og við sammála um að skýr stefna og hlutverk séu forsendur fyrir því að framkvæmd heilbrigðiþjónustunnar endurspeglist í fjármálaáætlun hins opinbera.

 

Það sem að okkur á HSU snýr, er að við sameininguna 2014 varð til 6. stærsta A- hluta stofnun á fjárlögum Ríkisins. Ríflega helmingur rekstarfjár fer til heilsugæslu og sjúkraflutninga, um þriðjungur til sjúkrarýma og einn sjötti til reksturs hjúkrunarrýma. Góður árangur hefur náðst í uppbyggingu HSU frá sameiningu heilbrigðisstofnanna á Suðurlandi í árslok 2014. Hjá okkur hefur tekist að byggja upp sterka liðsheild stjórnenda og oftast hefur gengið mjög vel að fá heilbrigðisstarfsmenn til starfa.

 

Sérstaða umdæmisins okkar á Suðurlandi er sú að íbúarnir eru nú ríflega 27.000 á um 30.000 km2.  Á  vestursvæðinu hefur íbúum fjölgað um 8-10% í frá árinu 2014. Það verður ekki hjá því komist að minnast á þá gífurlegu aukningu sem orðið hefur á eftirspurn eftir þjónustu hjá HSU á síðustu misserum og árum.  Fáir gátu séð fyrir þessa aukningu og vil ég fullyrða að vöxtur þjónustunnar sér fordæmalaus.  Sem dæmi má nefna að af tæplega 12.000 komum á BMT á Selfossi í fyrra voru eingöngu um 400 sjúklingar sendir með sjúkrabíl á bráðadeildir LSH. Stærsti hópur þeirra sem þangað leita eru slasaðir eða að glíma við bráð veikindi eða erfið einkenni langvinna sjúkdóma.

 

Ég lagði áherslu í mínu erindi spurninguna, hvaða verkefnum á HSU að sinna vel? Eins þurfum við stöðugt að spyrja hvernig við getum þróað og breytt þjónustunni sem flestum til hagsbóta.  Sumt er ill mögulegt að framkvæma vegna undirfjármögnunar. Annað höfum við bolmang til að betrumbæta og höfum þegar ráðist af stað í þau verkefni sem við getum haft áhrif á. Við viljum sjá virkari þjónustustýringu og leggja okkar að mörkum við samhæfingu heilbrigðisþjónustu í landinu, sem byggir á þörfum sjúklinga og landfræðilegri búsetu íbúa. Við þurfum að skoða markvisst hvernig nýtum við fjármuni betur með því að færa til verkefni milli heilbrigðisstétta og veita rétta þjónustu á réttum stað? Við viljum byggja upp bætt aðgengi og munum brátt kynna ákvarðanir um innleiðingu fjarheilbrigðiþjónustu og teymisvinnu í heilsugæslunni.

 

Ég tel mikilvægt að heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni séu sjálfbærar um hvernig best sé að veita heilbrigðisþjónustu á hverju starfssvæði. Frumkvæðið þarf að koma frá stofnunum, í hverju umdæmi, eftir því hvaða þjónustu við erum sjálfbær með að veita. Því er mikilvægt að búa til módel þar sem við getum nálgast þjónustu hjá LSH eða SAk eftir þörfum. Það er ánægjulegt að mikill samhljómur er meðal forstjóra um aukna samvinnu.

 

Við erum lánsöm að búa við gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu.  Leiðarljós okkar hlýtur að vera að starfa saman sem ein heild að því að hlúa sem best að hagsmunum og þörfum þeirra sem til okkar leita. Sjúklingurinn þarf að vera í brennidepli og við þurfum að hafa þor til að stokka upp því sem veldur sóun og taka í gagnið fjármögnun og þjónustu sem skilar enn betri árangri.

 

Góða helgi,

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.