Föstudagspistill forstjóra

27. október 2017

 

Kæra samstarfsfólk.

Nú í byrjun vikunnar áttum við morgunverðafund með frambjóðendum til Alþingiskosninga.  Þangað buðum við fulltrúum allra flokka í Suðurkjördæmi til kynningar á starfsemi, árangri og áskorunum í rekstri hjá okkur á HSU. Fundinn sóttu 10 fulltrúar frá 6 stjórnmálahreyfingum. Á fundinum var einnig lögreglustjórinn á Suðurlandi ásamt fulltrúa, enda margir sameiginlegir áhrifaþættir s.s. samgöngumál, náttúruvá, ör fjölgun íbúa og gífurlegur fjöldi ferðamanna. Samtalið á fundinum var mjög gagnlegt og upplýsandi milli allra aðila.

Ánægjulegt var að nú í vikunni var kynnt niðurstaða í hönnunarsamkeppni um hjúkrunarheimili í Árborg sem rísa mun á lóð HSU á Selfossi.  Þar mun opna nýtt 60 rúma hjúkrunarheimili í ársbyrjun 2020 fyrir íbúa Suðurlands.  Við óskum Sunnlendingum innilega til hamingju með þennan áfanga og viljum gjarnan taka þátt í uppbyggingu þjónustunnar. 

Þrátt fyrir væntanlega uppbyggingu hjúkrunarrýma er ljóst að tímabundin fækkun þeirra á Suðurlandi er farin að hafa veruleg áhrif á rekstur og þjónustu sjúkrahússins á Selfossi.  Enn eru vannýttar heimildir til rekstur hjúkrunarrýma á Suðurlandi frá því heimilum var lokað í upphafi þessa árs. Framkvæmdastjórn HSU hefur boðið fram krafta sína til að reka tímabundið hjúkrunarrými sem heimildir eru til að hafa opin á svæðinu en eru ekki í notkun. Nauðsynlegt er að grípa til aðgerða þar til nýtt heimili opnar.  Ástæðan er sú að sjúkrahús HSU á Selfossi getur ekki sinnt veikum sjúklingum sem þurfa sannarlega á sjúkrahúsmeðferð að halda ef deildin teppist af einstaklingum sem þurfa fremur að þiggja þjónustu á hjúkrunarheimili.

Nú er svo komið að lyflækningadeildin á Selfossi er yfirfull og þar er nú mikill meirihluti sjúklinga sem liggja inni með fullgilt færni- og heilsumat og bíða hjúkrunarrýmis.  Það er fyrirséð að þessi vandi verði viðvarandi næstu 2 árin.  Hjúkrunarheimili á Suðurlandi sem tók áður við sjúklingum í bið frá Árborgarsvæðinu hefur verið lokað. Nú nýtur þeirra ekki lengur við og við finnum því mikinn mun á samsetningu sjúklingahópsins hjá okkur. Fyrr á þessu ári hafa verið að jafnaði 6 hjúkrunarsjúklingar í biðrými á lyflækningadeild, sem er 18 rúma deild á Selfossi. Síðustu mánuði hefur staðan versnað jafnt og þétt.  Nú í dag, í lok október, eru 12 af 18 rúmum þar teppt með biðsjúklingum, eða 2/3 af rýmum deildarinnar. Teppa hefur einnig myndast við að leggja inn sjúklinga hjá okkur á Selfossi sem leita til BMT á Selfossi af því að engin rúm eru laus, eins og staðan er í dag.  Við erum því að senda sjúklinga á LSH sem við ættum annars að geta veitt viðeigandi meðferð og þjónustu.

Við teljum því algjörlega nauðsynlegt að efndir og aðgerðir haldist í hendur við fyrirheit um eflingu heilbrigðisþjónustu. Við erum stöðugt að leggja okkar af mörkum við að leggja fram tillögur um bættan rekstur heilbrigðisþjónustu fyrir Sunnlendinga.

 

Vona að þið eigið öll góða helgi framundan.

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.